Valur er kominn með leyfi fyrir Meistaradeildarleikinn

Valskonur mæta HJK á Hlíðarenda.
Valskonur mæta HJK á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur hefur fengið staðfestingu frá heilbrigðisyfirvöldum um að leikur Vals og HJK frá Helsinki í 1. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu geti farið fram hér á landi 3. eða 4. nóvember.

Valsmenn sóttu um undanþágu vegna þeirra sóttvarnatakmarkana sem hafa verið í gildi undanfarið og gilda til 3. nóvember. Sigurður Kristinn Pálsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Vals staðfesti við mbl.is að undanþágan hefði verið veitt, með þeim fyrirvara að farið væri eftir öllum þeim reglum sem í gildi væru.

Sigurður sagði ennfremur að eftir væri að ákveða endanlega hvort leikurinn færi fram 3. eða 4. nóvember en Valur þarf að tilkynna það til UEFA fyrir klukkan tíu í fyrramálið. Leikið verður á heimavelli Vals að Hlíðarenda, Origo-vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert