Bjarni ætlar að halda áfram á næsta ári

Bjarni Ólafur Eiríksson í leik með Val.
Bjarni Ólafur Eiríksson í leik með Val. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Ólafur Eiríksson, einn reyndasti knattspyrnumaður landsins, ætlar að halda áfram að spila næsta sumar enda þótt hann hafi nú yfirgefið ÍBV og spili ekki tvo síðustu leiki liðsins á Íslandsmótinu.

Þetta staðfestir Bjarni við Fótbolta.net í dag en hann er 38 ára gamall og kvaddi Valsmenn eftir síðasta tímabil. Hann var fyrirliði Eyjamanna í ár og hefur spilað alla 20 leiki þeirra í 1. deildinni til þessa.

Bjarni á tuttugu ár að baki í meistaraflokki og hafði ávallt leikið með Val hér á landi þar til á þessu ári. Hann kom fyrst inn í Valsliðið þegar það var í 1. deild árið 2000 og er leikjahæstur í sögu Hlíðarendafélagsins í úrvalsdeildinni með 244 leiki. Hann er jafnframt fjórtándi leikjahæstur í sögu deildarinnar en hefur þar fyrir utan spilað 59 leiki í 1. deild með ÍBV og Val. Deildaleikirnir hérlendis eru því 303 samtals.

Þá lék Bjarni í fimm ár erlendis, í úrvalsdeildum Danmerkur og Noregs með Silkeborg og Stabæk. Þar lék hann 128 deildaleiki. Alls á Bjarni því 431 deildaleik að baki á ferlinum sem gerir hann að átjánda leikjahæsta íslenska knattspyrnumanninum í sögunni.

Ljóst er að miðað við orð Bjarna við Fótbolta.net í dag þá getur hann enn hækkað sig verulega á þeim lista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert