Heppnar með heimaleikinn

Valskonur spila væntanlega Evrópuleik á Hlíðarenda í nóvember.
Valskonur spila væntanlega Evrópuleik á Hlíðarenda í nóvember. mbl.is/Íris

Valskonur höfðu heppnina með sér í gær þegar dregið var til 1. umferðar Meistaradeildar kvenna í fótbolta, að því leyti að þær munu spila á heimavelli sínum á Hlíðarenda 3. eða 4. nóvember.

Þær höfðu hins vegar ekki heppnina með sér að því leyti að mögulegir mótherjar voru tveir, finnsku meistararnir HJK frá Helsinki og færeysku meistaranir KÍ frá Klaksvík. UEFA raðaði þannig upp í drættinum að ferðalög yrðu sem styst í fyrstu umferð keppninnar. HJK er óumdeilanlega mun sterkara lið og ljóst er að Valskonur þurfa góðan leik til að tryggja sér sæti í 2. umferð keppninnar, sem fer fram tveimur vikum síðar.

Þá þurfti Valur undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum, vegna sóttvarnatakmarkana, til að öruggt væri að leikurinn gæti farið fram hér á landi 3. eða 4. nóvember. Sú undanþága var veitt í gær.

Leikið verður á Hlíðarenda og samkvæmt upplýsingum frá Val í gær verður það að öllum líkindum miðvikudaginn 4. nóvember en það verður endanlega staðfest í dag.

Valskonur þurfa að komast í gegnum tvær umferðir, þar sem aðeins er leikinn einn leikur í hvorri umferð, til að komast í 32 liða úrslitin en þau verða leikin í desember. Það eru því möguleikar fyrir hendi á því að keppnistímabil Hlíðarendaliðsins muni standa fram að jólum.

Undirbúningur Valsliðsins fyrir leikinn verður sérstakur. Sjö leikmenn Vals eru í Svíþjóð með landsliðinu og leika þar 27. október. Eftir heimkoma þurfa þær síðan að vera í sóttkví í fimm daga og geta því ekki sameinast liðsfélögum sínum á ný fyrr en rétt fyrir leikinn.

Fréttaskýringuna í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »