Reynum að keyra yfir þær

Glódís Perla Viggósdóttir í heimaleiknum gegn Svíþjóð.
Glódís Perla Viggósdóttir í heimaleiknum gegn Svíþjóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir landsliðskona í knattspyrnu er spennt fyrir stórleiknum við Svíþjóð ytra í undankeppni EM á þriðjudaginn kemur, en sigurlið leiksins er svo gott sem tryggt með efsta sæti riðilsins og sæti á lokamóti Evrópumótsins. 

„Við erum mjög sáttar með að hafa fengið að koma fyrr til Svíþjóðar og fengið aukadaga sérstaklega þar sem stelpurnar heima á Íslandi hafa ekki getað æft síðustu vikur. Hópurinn lítur vel út,“ sagði Glódís við samfélagsmiðla KSÍ en íslenska liðið hélt til Svíþjóðar fyrr en ella vegna æfingabanns á íslandi. 

Glódís segir íslenska liðið spennt fyrir leiknum og verður ekkert gefið eftir. „Okkur líður vel fyrir þennan leik. Þetta verður hörkuleikur og við erum spenntar. Við munum skoða leikinn heima og taka með okkur það sem gekk vel í lok fyrri hálfleiks og í seinni hálfleik og reyna að keyra yfir þær,“ sagði Glódís. 

mbl.is