Þjálfaralausir fyrir síðustu leikina

Viðar Jónsson er hættur störfum.
Viðar Jónsson er hættur störfum. Ljósmynd/Austurfrétt

Viðar Jónsson er hættur störfum sem þjálfari 3. deildarliðs Hattar/Hugins í knattspyrnu karla en liðið er í mikilli fallhættu fyrir tvær síðustu umferðirnar sem nú hefur verið ákveðið að leika í nóvembermánuði.

Austurfrétt greinir frá þessu og segir að Viðar muni ekki stýra liðinu í þessum tveimur síðustu leikjum og óvíst sé hver verði við stjórnvölinn. Samkomulag hafi verið gert um brotthvarf Viðars en hann hefði haft uppsagnarákvæði í samningi sínum í októbermánuði ár hvert.

Viðar tók við liði Hattar/Hugins í árslok 2018 eftir að hafa náð góðum árangri með lið Leiknis á Fáskrúðsfirði í nokkur ár þar á undan. Liðið varð í 6. sæti 3. deildar 2019 en er nú í 10. sæti, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti þegar tveimur umferðum er ólokið.

Fram kemur hjá Austurfrétt að erlendir leikmenn liðsins verði heldur ekki með í síðustu leikjunum en ákveðið hafi verið í síðustu viku að halda þeim ekki lengur vegna fjárhagsörðugleika.

Höttur frá Egilsstöðum og Huginn frá Seyðisfirði sameinuðu lið sín í árslok 2018 eftir að bæði liðin höfðu fallið úr 2. deildinni.

mbl.is