Vonandi náum við frábærum úrslitum

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir spilaði vel gegn Svíþjóð í síðasta mánuði.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir spilaði vel gegn Svíþjóð í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir leikmaður Breiðabliks og íslenska landsliðsins í fótbolta er spennt fyrir leiknum mikilvæga gegn Svíþjóð í undankeppni Evrópumótsins á þriðjudaginn kemur. Liðið sem fagnar sigri er svo gott sem öruggt með toppsæti riðilsins og sæti á lokamóti EM. 

Karólína kom afar sterk inn í landsliðið í síðasta verkefni er Ísland burstaði Lettland og náði góðu jafntefli við Svíþjóð. Karólína, sem er 19 ára, vonast eftir fleiri tækifærum í þessu verkefni. 

„Þú setur helst pressuna á sjálfan þig, en það var þvílíkt mikilvægt að fá traustið og ég þakkaði vel fyrir það. Vonandi fæ ég að spila eitthvað í þessu verkefni. Það er mikil samkeppni í liðinu og það heldur manni á tánum,“ sagði Karólína. 

Hún segir mikilvægt að nýta sér þá veikleika sem eru til staðar hjá sænska liðinu til að ná góðum úrslitum. „Við verðum að loka fyrir styrkleika þeirra og á sama tíma nýta okkur veikleikana. Vonandi náum við frábærum úrslitum,“ sagði Karólína í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum KSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert