Hrokafull umfjöllun Svía blóð á tennur íslenska liðsins

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska liðsins.
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Undirbúningurinn hefur gengið alveg ljómandi vel,“ sagði Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari Íslands, í samtali við mbl.is í dag.

Íslenska liðið mætir Svíþjóð í undankeppni EM á Ullevi-vellinum í Gautaborg á morgun. Ísland er með 13 stig í öðru sæti F-riðils en Svíþjóð er í efsta sætinu með 16 stig en íslenska liðið á leik til góða á það sænska.

„Undirbúningurinn hefur líka verið krefjandi þar sem við höfum þurft að koma öllum leikmönnum liðsins á sama ról ef svo má segja. Við erum með leikmenn sem koma úr mismunandi aðstæðum þar sem leikmennirnir erlendis hafa verið í miklu leikjaálagi á meðan íslensku leikmennirnir hafa ekkert spilað síðan 3. október. Það hefur því verið að mörgu að huga í undirbúningi liðsins fyrir leikinn en sem betur fer náðum við nokkrum aukadögum til þess að koma öllum á sama ról.

Ég er ótrúlega ánægður með hópinn og hvernig hann hefur tekist á við þetta verkefni. Við erum í búbblu og megum ekki fara neitt eða gera neitt. Þetta er langur tími til þess að vera fastur inni á hóteli í Gautaborg og að geta ekki labbað á næsta kaffihús til þess að brjóta upp daginn er auðvitað mjög sérstakt. Ég er þess vegna ótrúlega sáttur með stelpurnar og hversu góður andinn hefur verið innan hópsins.

Það hefur verið hálfgerður æfingabúðabragur yfir þessu sem er afar kærkomið fyrir okkur í þjálfarateyminu. Eins og ég hef áður sagt þá hefur aðeins vantað að ná upp ákveðnum takti milli leikja og verkefna til þess að halda áfram að bæta og þróa okkar leik. Þessi tími í Svíþjóð hefur því verið mjög dýrmætur og ég er gríðarlega þakklátur fyrir hann,“ sagði Jón Þór sem tók við þjálfun liðsins í október 2018.

Elín Metta Jensen skoraði mark Íslands gegn Svíþjóð í september.
Elín Metta Jensen skoraði mark Íslands gegn Svíþjóð í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stígandinn þarf að vera til staðar

Landsliðsþjálfarinn ítrekar að liðið sé á ákveðinni vegferð undir hans stjórn og að sú vegferð muni taka tíma.

„Við erum fyrst og fremst að einblína á það að þróa okkar takt og leik. Það er þess vegna mjög mikilvægt að það sé ákveðinn stígandi í því sem við erum að gera. Það var margt sem við gerðum og útfærðum mjög vel í fyrri leiknum gegn þeim á Laugardalsvelli.

Að sama skapi voru ákveðnir hlutir sem við viljum fínpússa líka og ég vonast til þess að við náum því fyrir leikinn á morgun. Við getum áfram bætt okkur og það er að sjálfsögðu það sem við ætlum okkur að gera.“

Sveindís Jane Jónsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína …
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræðan ekkert truflað

Sænskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að tala upp yngri leikmenn liðsins og voru þær Hlín Eiríksdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir orðaðar við stærstu lið Svíþjóðar í sænskum miðlum í dag.

„Það er ekkert nýtt fyrir okkur að þetta eru frábærir leikmenn. Við erum með marga efnilega leikmenn í hópnum og það er bara eðlilegt að þær veki athygli á sér með góðri frammistöðu. Ég hef ekki áhyggjur af því að það muni trufla þeirra frammistöðu eða einbeitingu. Þetta eru frábærir karakterar og það hefur ekki sést neitt á þeim að þessi umræða sé að trufla þær.

Þetta er frábær viðurkenning fyrir þeirra góðu störf, enda hafa þær staðið sig gríðarlega vel, en það vantar enn þá reynslu. Það fylgir fótboltanum oft og tíðum að þegar að þú stendur þig vel þá er talað um það, og þeir eiga þessa umræðu fyllilega skilið.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur að öllum líkindum á miðsvæðinu á …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur að öllum líkindum á miðsvæðinu á morgun í fjarveru Dagnýjar Brynjarsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið sjálfstraust í liðinu

Jón Þór var á leið á blaðamannafundi með sænsku pressunni eftir hádegi en Peter Gerhardsson hefur verið duglegir að tala niður íslenska liðið í aðdraganda leiksins.

„Sænska pressan hefur algjörlega látið mig í friði en það er blaðamannafundur á eftir. Umfjöllunin hérna úti hefur snúist mikið um það að íslenska liðið geti lítið annað en að kasta langt. Að íslenska liðið sé fast fyrir og markið sem við skoruðum hafi verið tóm óheppni. Eins að við höfum ekki náð að særa þær af neinu viti að sögn landsliðsþjálfara Svía.

Það er smá hroki í Svíunum eins og við þekkjum og þannig hefur það stundum verið í gegnum tíðina. Það er bara bensín fyrir okkur og auðvitað blóð á tennurnar líka. Að öðru leyti þá erum við ekki mikið að velta okkur upp úr þeirra umfjöllun. Við vitum og finnum það að það er sjálfstraust í liðinu og við erum ekki mætt hingað til þess að fylgjast með,“ bætti Jón Þór við í samtali við mbl.is.

Glódís Perla Viggósdóttir leikur rmeð Rosengård í Svíþjóð og þekkir …
Glódís Perla Viggósdóttir leikur rmeð Rosengård í Svíþjóð og þekkir vel til leikmanna sænska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is