Trúin til staðar í íslenska hópnum

Alexandra Jóhannsdóttir í barátttunni í leik Íslands og Svíþjóðar hinn …
Alexandra Jóhannsdóttir í barátttunni í leik Íslands og Svíþjóðar hinn 22. september síðastliðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það eru þvílík forréttindi að hafa fengið að fara svona snemma út og náð að æfa jafn vel og raun ber vitni,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

Íslenska liðið mætir Svíþjóð í undankeppni EM á Ullevi-vellinum í Gautaborg á morgun. Ísland er með 13 stig í öðru sæti F-riðils en Svíþjóð er í efsta sætinu með 16 stig en íslenska liðið á leik til góða á það sænska.

„Aðstæðurnar heima eru auðvitað aðeins sérstakar þar sem ekki er hægt að æfa og þess vegna var mjög gott fyrir liðið að ná svona góðum undirbúningi fyrir leikinn hérna í Svíþjóð. Annars er stemningin í hópnum mjög góð, það eru allir léttir og góðir á því. Við erum búin að vera saman núna í rúma viku og þetta hefur gengið frábærlega.

Við sem spilum heima höfum alls ekki verið neitt verri á æfingum en þeir leikmenn sem spila erlendis. Við erum allar á svipuðum stað að mínu mati og því alveg hægt að segja að þetta hlé á Íslandi hafi ekki sett mikið strik í reikninginn. Þú missir ekkert allt þol á tveimur vikum og hópurinn lítur virkilega vel út,“ sagði Alexandra sem á að baki sjö A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk.

Íslenska liðið fagnar marki Elínar Mettu Jensen gegn Svíum.
Íslenska liðið fagnar marki Elínar Mettu Jensen gegn Svíum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skrekkur í fyrri hálfleik

Alexandra lék allan leikinn á miðjunni þegar Ísland og Svíþjóð gerðu 1:1-jafntefli á Laugardalsvelli í september í undankeppni EM og segir hún margt jákvætt sem íslenska liðið getur tekið með sér inn í leikinn á morgun.

„Það mikilvægasta sem við tökum með okkur er trúin á að geta unnið leikinn. Það var smá skrekkur í okkur í fyrri hálfleik gegn þeim heima og við vorum aðeins passívar. Svo í seinni hálfleik vorum við síst lakari aðilinn í leiknum og sýndum að við getum alveg sótt á þær og spilað framarlega á vellinum.

Við vorum búnar að fara virkilega vel yfir þær fyrir leikinn og þær litu mjög vel út á öllum myndbandsklippum. Ósjálfrátt þá kannski fer maður aðeins inn í skelina en þegar í leikinn var komið þá gleymdi maður því alveg að þetta var bronsliðið frá HM 2019.

Við í Breiðabliki fengum frábæra reynslu gegn þessum stærri liðum þegar við mættum PSG í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og sú reynsla hjálpaði okkur klárlega fyrir leikinn gegn Svíunum.“

Alexandra Jóhannsdóttir sækir að marki Letta í undankeppni EM.
Alexandra Jóhannsdóttir sækir að marki Letta í undankeppni EM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nálægt því að taka næsta skref

Alexandra er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði en hún gekk til liðs við Breiðablik fyrir tímabilið 2018 og hefur verið lykilmaður í Kópavoginum síðan.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um framhaldið og eins og staðan er í dag verð ég í Breiðabliki næsta sumar.

Mér finnst ég vera komin ansi nálægt því að taka næsta skref en hvenær það skref verður tekið þarf svo bara að koma í ljós,“ bætti Alexandra við í samtali við mbl.is.

Elín Metta Jensen, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir fagna …
Elín Metta Jensen, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir fagna á Laugardalsvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert