Sara Björk slær leikjamet Katrínar

Sara Björk Gunnarsdóttir jafnaði leikjametið í fyrri leiknum gegn Svíum …
Sara Björk Gunnarsdóttir jafnaði leikjametið í fyrri leiknum gegn Svíum í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu slær leikjamet íslenska landsliðsins á Ullevi-leikvanginum í Gautaborg í kvöld þegar Ísland mætir Svíþjóð í undankeppni EM. Byrjunarliðið hefur verið tilkynnt og Sara er klár í slaginn.

Þetta er 134. landsleikur Söru og hún fer þar með fram úr Katrínu Jónsdóttur sem lék 133 landsleiki á árunum 1994 til 2013. Kveðjuleikur Katrínar var gegn Sviss á Laugardalsvellinum 26. september 2013.

Sara Björk, sem varð þrítug 29. september, lék sinn fyrsta A-landsleik aðeins sextán ára gömul, gegn Slóveníu í ágúst árið 2007. Hundraðasta leikinn lék hún 26 ára gömul gegn Japan í mars árið 2017.

mbl.is