Við vorum skrefinu á eftir

Jón Þór Hauksson fylgist með sínu liði í kvöld.
Jón Þór Hauksson fylgist með sínu liði í kvöld. Ljósmynd/Bildbyran

„Þetta var kaflaskipt,“ sagði svekktur Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 0:2-tap fyrir Svíþjóð ytra í undankeppni EM í fótbolta. Úrslitin þýða að Ísland á ekki lengur möguleika á að ná toppsæti riðilsins. 

„Byrjunin í leiknum var frábær. Hugarfarið var gott í byrjun og við gerðum þá hluti vel sem við ætluðum okkur. Við náðum að skapa okkur færi í fyrsta kafla leiksins og ég var hæstánægður  með byrjunina. Við hefðum getað komist yfir með smá heppni,“ sagði Jón Þór en Sofia Jakobsson kom Svíum yfir á 25. mínútu. 

„Mörk breyta auðvitað leikjum og eftir markið þeirra, sem þær gera virkilega vel, riðlast okkar leikur. Því miður náðum við ekki að komast til baka þrátt fyrir að við reyndum, við héldum alltaf áfram en eftir annað markið sem Svíarnir skora var þetta orðið erfitt. Svíarnir eru með gæðaleikmenn sem klára svona aðstæður sem þær gerðu vel í að koma sér í. Þetta er eitt af bestu landsliðum heims.“

Jón Þór segir takmarkaður spilatími margra leikmanna íslenska liðsins hafi haft sitt að segja í kvöld, en ekkert hefur verið spilað í íslensku deildinni síðan snemma í október. 

„Mér fannst það. Lunginn af okkar leikmönnum í dag spilaði síðast 3. október og mér fannst það gera það að verkum að við vorum skrefinu á eftir, en á Laugardalsvelli vorum við skrefinu á undan. Það vantaði ekkert upp á vilja og baráttu hjá íslenska liðinu í dag, það var algjörlega til fyrirmyndar. Ég er stoltur og ánægður með það.“

Þrátt fyrir úrslitin getur Ísland enn tryggt sér sæti á lokamótinu, án þess að fara í umspil, en þau þrjú lið sem eru með bestan árangur í öðru sæti fara á EM. Annars bíður íslenska liðsins umspil. 

„Við þurfum sex stig úr þeim og þetta tap breytir ekki því markmiði að vinna þá. Við sjáum til hverju það skilar okkur og hvernig það reiknast í stóru myndinni. Það eru þrjú lið sem komast áfram með bestan árangur í öðru sæti. Við eigum enn þá möguleika á því. Úrslitin heima á móti Svíunum gæti tryggt okkur nægilega góðan árangur til að fara beint á EM,“ sagði Jón Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert