Gæti stefnt í þéttpakkaðan þriðjudag

Eiður Benedikt Eiríksson og Pétur Pétursson, þjálfarar Vals.
Eiður Benedikt Eiríksson og Pétur Pétursson, þjálfarar Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undirbúningur Íslandsmeistara Vals fyrir leik liðsins gegn HJK frá Helsinki í 1. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu hinn 4. nóvember næstkomandi á Origo-vellinum á Hlíðarenda hefur verið með óhefðbundnari kantinum.

Valur átti sjö fulltrúa í íslenska landsliðshópnum sem tapaði 2:0-fyrir Svíþjóð í undankeppni EM í Gautaborg á þriðjudaginn síðasta.

Leikmenn Vals snéru aftur til landsins í gær og eru nú í sóttkví en landsliðsmennirnir verða í sóttkví eitthvað fram í næstu viku og ef allt fer á versta veg gæti liðið bara náð einum degi saman í undirbúning fyrir leikinn mikilvæga.

„Það óþægilega í þessu er að við erum að mæta liði sem við höfum aldrei mætt áður,“ sagði Eiður Ben Eiríksson, annar þjálfara Vals, í samtali við mbl.is í dag.

„Þú þarft að fara aðeins meira í smáatriðin en venjulega og við þjálfararnir þurfum að koma upplýsingum um liðið til leikmanna.

Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um að undirbúa liðið sem best fyrir leikinn. Það er mánuður síðan við spiluðum síðast en vonandi mun þetta ekki hafa of mikil áhrif á okkur,“ sagði Eiður.

Hallbera Guðný Gísladóttir og Elín Metta Jensen voru báðir í …
Hallbera Guðný Gísladóttir og Elín Metta Jensen voru báðir í byrjunarliðinu gegn Svíum í Gautaborg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Æfa með landsliðinu

Valsmenn hafa sótt um undanþágu fyrir leikmenn sína þannig að þeir geti komið til móts við hópinn fyrr en áætlað var.

„Við erum að reyna fá þessa átta tíma undanþágu hjá stjórnvöldum til þess að fá þær fyrr til okkar. Þær fóru í skimun við komuna til landsins og fara svo aftur í skimun um helgina geri ég ráð fyrir.

Eins og staðan er í dag þá æfa þær með landsliðinu sem er frábært en allur hópurinn mun svo þurfa að fara í skimun hjá UEFA í næstu viku fyrir leikinn.“

Eiður segir að í versta falli komi allt liðið saman í fyrsta sinn fyrir leikinn á þriðjudaginn.

„Ef við fáum leikmennina ekki til okkar í byrjun næstu viku eða um helgina þá gæti stefnt í þétt pakkaðan þriðjudag þar sem við þurftum þá að taka tvær æfingar og töflufundi líka.

Það er langt síðan maður hitti þessa leikmenn því eftir síðasta leik tókum við létta æfingu og svo var öllu skellt í lás þannig að þetta verður kærkomið,“ bætti Eiður Ben við í samtali við mbl.is.

Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals.
Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is