Keppni hætt á Íslandsmótinu í knattspyrnu

Guðni Bergsson formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri.
Guðni Bergsson formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri. Ljósmynd/KSÍ

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákvað á fundi sínum í dag að hætta keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu og einnig í bikarkeppninni. 

KSÍ sendi frá sér tilkynningu þar sem greint er frá ákvörðuninni en stjórn sambandsins fundaði eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar í dag þar sem tilkynnt var um hertar aðgerðir í baráttunni við kórónueiruna, alla vega til 17. nóvember. 

Tilkynning KSÍ

Eins og fram hefur komið hefur stjórn KSÍ heimild til að aflýsa Íslandsmótinu með þeim hætti að núverandi staða gildi varðandi Íslandsmeistarana og hvaða lið fara á milli deilda. Reglugerð var hönnuð í vor með tilliti til ástandsins í heiminum og gerir hún stjórn KSÍ kleift að grípa til þess ef 2/3 Íslandsmótsins hafa verið afgreiddir. Sú er raunin. 

Breiðablik og Valur er þar með Íslandsmeistarar árið 2020. Breiðablik í kvennaflokki og Valur í karlaflokki. 

Ekkert lið verður hins vegar bikarmeistari árið 2020 en þar voru fjögur liða eftir í báðum keppnum. 

 Í 6. grein reglugerðarinnar er fjallað um þátttöku í Evrópukeppnum. Þar kemur fram að þátttaka liða í Evrópukeppni ársins 2021 skuli ráðast af röð þeirra í efstu deild Íslandsmótsins. Jafnframt kemur fram að náist ekki að ljúka keppni í bikarkeppni karla, en Íslandsmóti lýkur samkvæmt grein 5.1.1., leikur liðið í 4. sæti efstu deildar Íslandsmóts í Evrópukeppni.

FH hafnar í 2. sæti, Stjarnan í 3. sæti og Breiðablik í 4. sæti í karlaflokki. 

Grótta og Fjölnir eru langneðst í efstu deild karla og ljóst var að þeirra hlutskipti yrði að falla aftur niður í 1. deild karla. Keflavík og Leiknir R. taka þá sæti þeirra en þau eru í tveimur efstu sætunum í 1. deild karla. 

Í efstu deild kvenna eru FH og KR í tveimur neðstu sætunum. Tindastóll og Keflavík taka sæti þeirra í efstu deild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert