Framarar íhuga að leita réttar síns

Framarar eru ósáttir með ákvörðun stjórnar KSÍ.
Framarar eru ósáttir með ákvörðun stjórnar KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framarar íhuga að láta reyna á réttarstöðu sína fyrir viðkomandi úrlausnaraðilum eftir að stjórn KSÍ ákvað að hætta keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu í gær.

Þetta kom fram í yfirlýsingu sem knattspyrnudeild Fram sendi frá sér en Framarar voru í þriðja sæti 1. deildarinnar, Lengjudeildarinnar, þegar ákveðið var að hætta keppni.

Liðið var með 43 stig, líkt og Leiknir úr Reykjavík, en þar sem Leiknismenn voru með betri markatölu fara þeir upp um deild ásamt Keflavík á meðan Framarar sitja eftir með sárt ennið.

Í tilkynningu Framara kemur meðal annars fram að samkvæmt skýru orðalagi reglugerðar KSÍ sem sett var á í júlí eru Fram og Leiknir jafnstæð þegar kemur að meðalfjölda stiga hvers liðs fyrir sig.

Yfirlýsing Fram:

Knattspyrnudeild Fram harmar ákvörðun stjórnar KSÍ um að ljúka deildarkeppni í Lengjudeildinni áður en keppnistímabilinu er lokið.

Knattspyrnudeild Fram gerir athugasemd við að stjórn KSÍ hafi heimild til að ákveða að Leiknir Reykjavík skuli hljóta sæti í úrvaldsdeild á næsta tímabili. Í reglugerð sem stjórn KSÍ byggir á segir að við ákvörðun um endanlega niðurröðun ráði: „meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst“.

Fram og Leiknir voru með sama meðalfjölda stiga er mótinu var aflýst. Samkvæmt skýru orðalagi reglugerðarinnar eru félögin því jafnstæð og sama má segja um þrjú neðstu lið deildarinnar. Ákvörðun stjórnar KSÍ er því markleysa enda í andstöðu við reglugerð KSÍ. Jafnframt er gerður fyrirvari um heimild stjórnar KSÍ um setningu reglugerðarinnar í júlí 2020.

Þegar uppi eru sérstakar aðstæður sem þessar verður að taka tillit til þeirrar stöðu sem uppi er og leysa mál á sem sanngjarnastan og eðlilegastan hátt. Það mætti t.d. láta reyna á að fjölga liðum í efstu deild og næstefstu deild á næsta keppnistímabili vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi.

Knattspyrnudeild Fram íhugar að láta reyna á réttarstöðu sína fyrir viðkomandi úrlausnaraðilum.

Stjórn Knattspyrnudeildar Fram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert