Raunveruleikinn sem þarf að horfast í augu við

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er virkilega sérstök tilfinning eins og allt tímabilið hefur verið,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

KSÍ tók þá ákvörðun í gær að blása af keppnistímabilið og var Breiðablik með nokkuð öruggt forskot í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, þegar ákvörðunin var tekin.

„Þetta var allt öðruvísi tímabil en maður hefur vanist og eitthvað sem gleymist seint. Ég átti von á þessari ákvörðun, eftir fund Almannavarna á fimmtudaginn, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Þá vissi maður að við myndum ekki fá að æfa í tvær til þrjár vikur og þá gaf ég stelpunum frí alla helgina. Við ætluðum svo bara að heyrast um helgina og sjá til með framhaldið.

Breiðablik er Íslandsmeistari í kvennaflokki.
Breiðablik er Íslandsmeistari í kvennaflokki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstaða sem menn verða að taka

Þjálfarinn segir vegna landsleikja Íslands við Slóvakíu og Ungverjaland í undankeppni EM þá hefði verið ansi erfitt að halda leik áfram.

Staðreyndin er sú, miðað við niðurstöðu gærdagsins, þá hefði kvennaboltinn aldrei byrjað aftur fyrr en í fyrsta lagi í kringum 10. desember út af landsleikjahléi og sóttkvíarveseni. Það hefði verið hægt að spila síðustu leikina rétt fyrir jól og þá erum við að horfa á að bikarinn hefði farið fram milli jóla og nýárs.

Það er sá raunveruleiki sem við erum að horfa á og hann miðast við það að allt gangi upp. Svo gæti auðvitað einhver þurft að fara í sóttkví eða eitthvað slíkt og þá frestast þetta ennþá frekar. Þetta er niðurstaðan og eins sárt og það er fyrir marga þá er þetta bara sú niðurstaða sem menn verða að taka. Allavega kvennaboltamegin.

Það hefði aldrei verið hægt að klára allt fyrr en í janúar í fyrsta lagi en þetta var ekki ákvörðun sem ég hefði ekki viljað þurfa að taka.“

Agla María Albertsdóttir átti frábært sumar og var markahæsti leikmaður …
Agla María Albertsdóttir átti frábært sumar og var markahæsti leikmaður efstu deildar kvenna ásamt Sveindísi Jane Jónsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn ef þeim eftirminnilegri

Þorsteinn tók við þjálfun Breiðabliks fyrir tímabilið 2015 og vinnur nú sinn þriðja Íslandsmeistaratitil með liðið.

„Maður á alltaf eftir að muna eftir þessum bikar og hann verður alltaf sögulegur í ljósi þess að við vinnum hann án þess að ljúka mótinu. Vonandi gerist það aldrei aftur en þetta verður mjög líklega einn af þeim eftirminnilegri.

Við höfum spilað frábærlega í allt sumar, það er ekkert launungarmál. Við höfum verið best í sumar og Valsliðið næstbest líkt og taflan segir til um.

Við erum líka búin að lenda í ýmsu á tímabilinu, meiðsli, ólétta og við vorum með þunnskipaðan hóp í janúar. Leikmenn hafa smitast af kórónuveirunni og þurft að fara í sóttkví en samt höfum við alltaf náð að leysa þetta, þrátt fyrir skakkaföll.

Alltaf hefur okkur tekist að spila jafnvel og af því er ég mjög stoltur.“

Sveindís Jane Jónsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir hafa báðar verið orðaður …
Sveindís Jane Jónsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir hafa báðar verið orðaður við atvinnumennsku að undanförnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Litlar breytingar í vændum

Margir af lykilmönnum liðsins hafa verið sterklega orðaðar við atvinnumennsku að undanförnu en Þorsteinn á ekki von á miklum breytingum á leikmannahópnum.

„Ég á ekki von á miklum breytingum á leikmannahópnum ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég fæ Fjollu, Ástu Eir og Selmu Sól aftur til baka en þær misstu allar af þessu tímabili.

Framtíð Sveindísar Jane er aðeins í lausu lofti enda er hún samningsbundinn Keflavík. Þetta er í raun undir henni sjálfri komið og hvað það er sem hún vill gera og það er eitthvað sem kemur bara betur í ljós síðar meir,“ bætti Þorsteinn við í samtali við mbl.is.

Elín Metta Jensen og Sonný Lára Þráinsdóttir eigast við í …
Elín Metta Jensen og Sonný Lára Þráinsdóttir eigast við í leik Vals og Breiðabliks í byrjun október. mbl.is/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert