Frjósemi á Hlíðarenda

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er ófrísk af sínu öðru barni.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er ófrísk af sínu öðru barni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er ekki í leikmannahóp Vals sem mætir HJK frá Helsinki í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag.

Ásgerður er ófrísk en þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is. Ásgerður á eitt barn fyrir með knattspyrnumanninum Almarri Ormarssyni sem er fyrirliði KA í efstu deild karla.

Ásgerður er ekki eini leikmaður liðsins sem er með barni því Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður liðsins, er einnig ófrísk af sínu fyrsta barni en hún er í sambúð með Eyjólfi Héðinssyni, leikmanni Stjörnunnar.

Ásgerður, sem er 33 ára gömul, er á meðal reynslumestu leikmanna efstu deildar kvenna frá upphafi en hún á að baki 251 leik í efstu deild þar með Val, Stjörnunni og Breiðabliki.

Í þessum leikjum hefur hún skorað 28 mörk en hún gekk til liðs við Val fyrir tímabilið 2019 og var Íslandsmeistari með liðinu síðasta sumar.

Þá varð hún fjórum sinnum Íslandsmeistari með Stjörnunni á þrettán ára tíma sínum í Garðabænum og þrívegis bikarmeistari.

Ásgerður er komin sextán vikur á leið og því ljóst að hún mun líklegast missa af öllu næsta tímabili með Valskonum næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert