Fimm mínútum frá lokakeppninni

Erik Hamrén á hliðarlínunni í kvöld.
Erik Hamrén á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Ég er virkilega vonsvikinn,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Stöð 2 Sport eftir 2:1-tap Íslands gegn Ungverjalandi í umspili um laust sæti á EM á Puskás Aréna í Búdapest í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson kom íslenska liðinu yfir strax á 11. mínútu en Loic Nego jafnaði metin fyrir Ungverja á 88. mínútu áður en Dominik Szoboszlai tryggði Ungverjum sigur með marki í uppbótartíma.

„Við vorum fimm mínútum frá því að tryggja okkur sæti í lokakeppninni en svona er þetta stundum. Það var ákveðinn taugatitringur í báðum liðum til að byrja með en við skoruðum snemma og við það fór skrekkurinn aðeins úr okkur.

Jóhann Berg fékk svo frábært færi undir lok fyrri hálfleiks til þess að bæta við marki en tókst ekki að skora. Hannes var mjög öruggur í markinu allan tímann og þrátt fyrir að þeir hafi verið meira með boltann fannst mér þeir aldrei ógna okkur af neinu viti.“

Íslenska liðið fékk á sig tvö mörk á lokamínútum leiksins en leikmenn liðsins virkuðu mjög þreyttir undir restina.

„Þegar allt kemur til alls þá skorti okkur kjarkinn til þess að klára leikinn,“ bætti sænski þjálfarinn við í samtali við Stöð 2 Sport.

Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Rúnar Már Sigurjónsson …
Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Rúnar Már Sigurjónsson fagna marki íslenska liðsins í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert