Svekkjandi tap gegn Ítalíu

Hörður Ingi Gunnarsson og Davide Frattesi í kaupphlaupi á Víkingsvelli …
Hörður Ingi Gunnarsson og Davide Frattesi í kaupphlaupi á Víkingsvelli í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska U21-árs karlalandsliðið mátti þola afar svekkjandi 2:1-tap gegn Ítalíu á Víkingsvelli í undankeppni EM í knattspyrnu í dag. Sigurmarkið kom undir lok leiksins og er þá baráttan um efsta sæti riðilsins svo gott sem töpuð.

Það voru gestirnir sem tóku forystuna á 35. mínútu við erfið veðurskilyrði í Fossvoginum, það ringdi mikið og var nokkuð hvasst. Fótboltinn var eftir því og fátt um fína drætti þangað til að Tommaso Pobega braut ísinn með þrumuskoti upp í nærhornið vinstra megin eftir að Róbert Orri átti Þorkelsson átti misheppnaða hreinsun í eigin vítateig.

Ísland jafnaði metin á 63. mínútu og kom markið í kjölfar langs innkasts frá Herði Inga Gunnarssyni. Marco Carnesecchi, sem lenti nokkrum sinnum í vandræðum í ítalska markinu, fór þá í skógarhlaup og missti af boltanum. Jón Dagur Þorsteinsson renndi honum til Andra Fannars Baldurssonar utan teigs sem lét vaða að marki og Willum Þór Willumsson hjálpaði boltanum síðasta spölinn, stýrði honum í tómt netið.

Jón Dagur Þorsteinsson á Víkingsvelli í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson á Víkingsvelli í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir þetta voru íslensku strákarnir öflugir og reyndu hvað þeir gátu til að kreista fram sigurmark og hirða toppsætið í riðlinum en fengu svo skell undir lokin. Pobega skoraði sitt annað mark, og sigurmark leiksins á 88. mínútu, þegar hann lét vaða utan teigs. Skotið sem slíkt var ekki merkilegt en boltinn fór af Alex Þór Haukssyni, breytti um stefnu og endaði í horninu en Patrik Sigurður Gunnarsson kom engum vörnum við í markinu.

Ísland er með 15 stig í fjórða sæti riðilsins en liðið mætir Írlandi á sunnudaginn úti og verður þar að vinnast sigur. Ítalir eru á toppnum með 19 stig, Írar er með 16 og Svíar í þriðja með 15. Þær níu þjóðir sem hafna í efsta sæti síns riðils fara beint á EM, sem og þær fimm þjóðir sem eru með bestan árangur í öðru sæti riðlakeppninnar.

Liðin hlýða á þjóðsöngvana í Fossvoginum.
Liðin hlýða á þjóðsöngvana í Fossvoginum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Ísland U21 1:2 Ítalía U21 opna loka
90. mín. Alex Þór Hauksson (Ísland U21) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert