Þurfum nú að klára þetta af krafti

Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauks­son, þjálf­ari ís­lenska kvenna­landsliðsins, ræddi við mbl.is í dag eftir að hafa opinberað landsliðshópinn sem mætir Slóvakíu og Ung­verjalandi í undan­keppni EM 2022 í kringum næstu mánaðarmót.

Tvær breyt­ing­ar hafa verið gerðar á hópn­um sem mætti Svíþjóð í lok októ­ber. Dagný Brynj­ars­dótt­ir og Rakel Hönnu­dótt­ir koma inn en úr hópn­um fara Karólína Lea Vil­hjálms­dótt­ir og Hólm­fríður Magnús­dótt­ir.

„Karólína Lea hefur komið frábærlega inn í okkar lið en hún er meidd, er á leiðinni í aðgerð á hné og getur því ekki verið með okkur í þessum tveimur leikjum. Það er auðvitað slæmt fyrir okkur og sömuleiðis getur Hólmfríður ekki verið með eftir að hafa komið sterk inn í síðustu verkefni,“ sagði Jón Þór og bætti svo við að það væri ekki slæmt að fá tvo reynslumikla leikmenn inn í staðinn. Rakel og Dagný eiga 192 landsleiki sín á milli.

„Að sama skapi er frábært að fá Rakel og Dagnýju aftur inn í okkar hóp. Þetta eru tveir reynslumiklir leikmenn sem munu nýtast okkur frábærlega í þessum leikjum.“

Íslenska liðið stendur ágætlega að vígi um að komast á lokakeppni EM á Englandi. Svíþjóð er öruggt um efsta sætið í riðlinum með 19 stig en Ísland er sem stendur í öðru sæti með 13 stig þegar þessir tveir leikir eru eftir. Þau þrjú lið með besta árangurinn í öðru sæti í riðlunum átta komast einnig á EM. Ef Ísland vinnur báða þessa leiki verður staðan býsna góð.

Ísland vann heimaleikina gegn báðum þjóðum, 4:1 gegn Ungverjalandi og 1:0 gegn Slóvakíu. Jón Þór segir þó mikið hafa gengið á síðan þeir leikir fóru fram á síðasta ári.

„Bæði þessi lið hafa lent í ýmsu eftir að kórónuveirufaraldurinn herjaði á heiminn. Þau hafa lent illa í því í undanförnum leikjum. Bæði Ungverjar og Slóvakar fóru til Svíþjóðar og fengu stóra skelli en við megum ekki láta það blekkja okkur. Það vantaði marga leikmenn í bæði þessi lið út af veirunni.

Bæði lið verða erfið á þeirra heimavelli. Við höfum komið okkur í fína stöðu en þurfum nú að klára þetta af krafti. Við förum í alla leiki til að vinna þá og stefnum ótrauð að okkar markmiði, að komast á EM á Englandi,“ sagði Jón Þór við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert