Annað grátlegt tap á Parken

Andreas Christiansen og Jón Daði Böðvarsson eigast við í kvöld.
Andreas Christiansen og Jón Daði Böðvarsson eigast við í kvöld. AFP

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mátti þola annað grátlega 1:2-tapið á þremur dögum er liðið heimsótti Danmörku á Parken í Kaupmannahöfn í Þjóðadeildinni. Christian Eriksen skoraði sigurmarkið úr víti í uppbótartíma. 

Danir byrjuðu betur og Christian Eriksen skoraði fyrsta markið á 12. mínútu með marki úr víti eftir að Ari Freyr Skúlason braut af sér innan teigs. Lítið markvert gerðist út fyrri hálfleikinn og var staðan í leikhléi 1:0. 

Íslenska liðið kom vel út í seinni hálfleikinn og pressaði vel á danska liðið. Það skilaði að lokum jöfnunarmarki því Ari Freyr sendi glæsilega inn fyrir á varamanninn Viðar Örn Kjartansson sem komst einn inn fyrir og skoraði af öryggi fram hjá Frederik Rønnow varamarkverði danska liðsins. 

Það dugði hins vegar ekki til jafnteflis því Danir fengu annað víti í uppbótartíma þegar Youssuf Poulsen skallaði boltann í höndina á Herði Björgvini Magnússyni í teignum. Aftur fór Eriksen á punktinn og aftur skoraði hann af öryggi og þar við sat. 

Belgía er í toppsæti riðilsins með 12 stig, Danmörk í öðru með 10, England í þriðja með sjö stig og Ísland á botninum án stiga. Ísland heimsækir England á miðvikudagskvöldið í lokaumferðinni.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Danmörk 2:1 Ísland opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is