Árbæingar á leið í atvinnumennsku?

Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur verið fastamaður í íslenska landsliðshópnum að …
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur verið fastamaður í íslenska landsliðshópnum að undanförnu. mbl.is/Hari

Knattspyrnukonurnar Berglind Rós Ágústsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir gætu báðar verið á förum frá Fylki samkvæmt heimildum mbl.is.

Berglind Rós, sem er 25 ára gömul, er eftirsótt af liðum í Noregi en hún gekk til liðs við Fylki frá uppeldisfélagi sínu Val fyrir tímabilið 2017 og hefur verið algjör lykilmaður í Árbænum síðan.

Hún hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin þrjú tímabil og á að baki 87 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 3 mörk. Þá á hún að baki einn A-landsleik en þar sem lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar var frestað fram í desember er líklegt að framtíð hennar skýrist ekki fyrr en á nýju ári.

Ensku úrvalsdeildarfélögin Chelsea og Everton hafa bæði sýnt Ceclíu Rán áhuga en hún er einungis 17 ára gömul og ein efnilegasta knattspyrnukona landsins.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið fastamaður í íslenska landsliðshópnum í undankeppni EM en félög í þýskalandi hafa einnig spurst fyrir um markvörðinn.

Cecilía er í landsliðshópnum sem mætir Ungverjalandi og Slóvakíu í lokaleikjum sínum í undankeppni EM en eftir landsleikina má gera ráð fyrir því að hún taki ákvörðun um framtíð sína.

Berglind og Cecilía hafa verið á meðal bestu leikmanna Íslandsmótsins undanfarin ár og ljóst að brotthvarf þeirra yrði mikið áfall fyrir Árbæinga sem höfnuðu í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili.

Berglind Rós Ágústsdóttir og Miyah Watford eigast við í leik …
Berglind Rós Ágústsdóttir og Miyah Watford eigast við í leik ÍBV og Fylkis í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is