Gamall draumur rætist hjá Hamrén

Erik Hamrén segir sig hafa dreymt um að spila leik á Wembley þegar hann fór að fylgjast með knattspyrnu í Svíþjóð í gamla daga. Annað kvöld stýrir hann Íslandi gegn Englandi á Wembley í Þjóðadeild UEFA. 

„Við reynum alltaf að tefla fram okkar sterkasta liði. Við erum búnir að spila tvo leiki og báðir mótsleikir. Við erum því í aðeins meiri vandræðum en Danir og Englendingar sem spiluðu vináttuleiki. Við getum ekki gengið frá leikmönnum með því að láta þá spila þrisvar sinnum 90 mínútur á nokkrum dögum. Við þurfum að taka tillit til þeirra en við reynum jafnframt að tefla fram okkar sterkasta liði sem hægt er. Fyrir mér þá er ég alltaf að keppa um eitthvað. Maður spilar fyrir þjóðina og fyrir stoltið. Það er ávallt mikilvægt að ná í úrslit þegar landsliðið spilar. Við reynum það alltaf. Þjóðadeildin hefur verið erfið meðal annars vegna þess að við höfum á sama tíma verið að reyna að vinna okkur sæti í lokakeppni EM. Við höfum átt meira skilið í Þjóðadeildinni að mínu mati. Við viljum sýna góða frammistöðu og takist það eru auknar líkur á að ná góðum úrslitum. Ég myndi gjarnan vilja vinna leikinn en auðvitað eru Englendingar mun sigurstranglegri,“ sagði Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, á blaðamannafundi í London í morgun. Ísland mætir þar Englandi á morgun en að undanförnu er íslenski hópurinn búinn að koma við í Þýskalandi, Ungverjalandi, Danmörku og nú Englandi.

Hamrén var spurður hvort honum þætti óþægilegt að fara í útileiki á tímum heimsfaraldursins. „Ég treysti starfsfólkinu. Við erum nú í fjórða landinu á sex dögum og við nálgumst verkefnin af varkárni í sambandi við faraldurinn.“

Ísak Bergmann í leik með U21 árs landsliðinu gegn Ítalíu …
Ísak Bergmann í leik með U21 árs landsliðinu gegn Ítalíu á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon



Fyrri leikurinn gegn Englandi á Laugardalsvelli í september komst til tals en þá hafði England naumlega betur 1:0. „Við stóðum okkur vel og vörðumst vel gegn góðu liði. En svo kom þessi vítaspyrnudómur sem átti ekki rétt á sér að mínu mati og þeir skoruðu úr vítinu. Svo fengum við einnig víti en það nýttist ekki. Ég vorkenndi leikmönnunum því þeir lögðu mikið á sig en fengu ekki stig. Þetta er ný áskorun og við eigum eftir að sjá hvernig Englendingar bregðast við eftir tap gegn Belgíu. Ég á ekki von á öðru en að Englendingar mæti stoltir til leiks og verði erfiðir viðureignar. Ég hlakka til að mæta á Wembley sem er eins konar Mekka fótboltans. Mig dreymdi í gamla daga um að mæta í leik á Wembley. Við skulum sjá hvort við náum að koma á óvart,“ sagði Hamrén og var einnig spurður hvort Skagamaðurinn ungi, Ísak Bergmann Jóhannesson, muni ná að spila sinn fyrsta A-landsleik á morgun en hann var kallaður inn í hópinn vegna forfalla. 

„Hann er hér ásamt fleiri leikmönnum úr U21 árs liðinu. Hann er hæfileikaríkur og mun spila marga leiki fyrir Ísland í framtíðinni. Ég veit ekki enn þá hvort hann muni koma við sögu. Hans fyrsta verkefni með landsliðinu er að fara í leik á Wembley og hann er lánsamur hvað það varðar,“ sagði Erik Hamrén enn fremur en fundurinn fór fram í gegnum fjarfundabúnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert