Yfirlýsing KSÍ vegna pistils á mbl.is

Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnusamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna skoðanapistils sem Kristófer Kristjánsson, íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu og mbl.is, birti á mbl.is í gærkvöld þar sem sambandið var gagnrýnt fyrir hvernig staðið var að lokum Íslandsmótsins í knattspyrnu 2020.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Að gefnu tilefni og vegna skoðanapistils blaðamanns Morgunblaðsins sem birtist á mbl.is í gærkvöld þá vill KSÍ koma eftirfarandi á framfæri:

Varðandi einróma ákvörðun stjórnar KSÍ um mótslok þá vill stjórn KSÍ árétta að hún hafði skýra tilvísun og lagastoð í 44. grein laga KSÍ um aðgerðir þegar meiri háttar utanaðkomandi atburðir krefjast þess. Áhrif Covid-19 eru öllum ljós í samfélaginu og á sviði íþrótta innanlands sem erlendis. Sú staða sem hreyfingin fann sig í var mjög erfið. Stjórnin hafði sett sérstaka reglugerð sem samþykkt var í júlí eftir víðtækt samráð og m.a. var leitað eftir afstöðu aðildarfélaganna og stjórnar ÍTF um mótslok. 

Reglugerðin var síðan kynnt og birt aðildarfélögunum, en almenn sátt var um þá nálgun sem þar kom fram. Það var vandað til verka með aðkomu sem flestra, og hugað að ýmsum málum sem ákvörðun um framhald eða lok móts myndi hafa mikil áhrif á, eins og t.d. samninga leikmanna og þjálfara, félagaskipti leikmanna og margt fleira, svo sem vallaraðstæður og veðurfar. 

Það er síðan aga- og úrskurðarnefnd sem kjörin er af aðildarfélögunum á ársþingi KSÍ, æðsta stjórnvaldi hreyfingarinnar, sem hefur komist að niðurstöðu skv. þeirra skilningi á lögum KSÍ sem félögin hafa samþykkt á ársþingi að fengnum auknum meirihluta félaganna hverju sinni.

Það eru mikil vonbrigði og hreinlega dapurlegt að lesa einhliða skoðanapistil blaðamanns Morgunblaðsins um málið, þar sem vinnubrögð kjörinna fulltrúa knattspyrnuhreyfingarinnar eru gerð tortryggileg, og hæfi þeirra og heilindi dregin í efa. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa, þegar fjallað er um erfið og flókin mál eins og þetta, að leita upplýsinga um allar hliðar frá fulltrúum KSÍ, eða öðrum fulltrúum knattspyrnuhreyfingarinnar eins og við á hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert