Ísland steinlá í kveðjuleik Hamréns

Enska landsliðið sigraði það íslenska örugglega, 4:0, í lokaleik 2. riðils A-deildar Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu karla í kvöld. Sigurinn hefði getað verið enn stærri og sáu Íslendingar aldrei til sólar í leiknum.

Íslenska landsliðið var fyrir leikinn fallið úr A-deildinni og endar riðilinn á botninum án stiga. Erik Hamrén stýrði sínum síðasta landsleik sem landsliðsþjálfari Íslands. Töpuðust allir 10 leikirnir í Þjóðadeildinni undir hans stjórn.

Eftir nokkuð hæga byrjun komust Englendingar yfir á 20. mínútu leiksins. Þá tók Phil Foden aukaspyrnu af vinstri kanti og sendi boltann beint á Declan Rice, sem var einn á auðum sjó og skallaði boltann örugglega í netið.

Englendingar tvíefldust svo sannarlega eftir markið því þeir tvöfölduðu forskot sitt aðeins fjórum mínútum síðar. Íslenska vörnin átti þá í erfiðleikum með að hreinsa frá og fór það ekki betur en svo að hreinsun Ara Freys Skúlasonar fór beint til Masons Mounts. Mount þakkaði fyrir sig og lagði boltann með vinstri fæti í bláhornið af stuttu færi.

Það sem eftir lifði hálfleiks fengu Englendingar urmul tækifæra til þess að bæta enn frekar við en höfðu ekki erindi sem erfiði. Staðan í hálfleik því 2:0.

Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir íslenska liðið. Á 54. mínútu fékk Birkir Már Sævarsson sitt annað gula spjald og þar með rautt. Íslendingar spiluðu því 10 það sem eftir lifði leiks.

Englendingar juku loks forskot sitt á 80. mínútu leiksins. Eftir laglegan þríhyrning milli Jadons Sanchos og Bukayos Saka renndi Sancho boltanum á Foden sem var einn í miðjum teignum og kláraði vel. Staðan orðin 3:0.

Fjórum mínútum síðar kórónaði Foden frábæran leik sinn þegar hann fékk boltann fyrir utan teig og þrumaði honum í nærhornið, 4:0.

Á 88. mínútu kom hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson inn á í sínum fyrsta landsleik. Hann varð þar með þriðji ættliðurinn í fjölskyldu sinni til þess að spila A-landsleik í knattspyrnu karla þar sem faðir hans, Jóhannes Karl Guðjónsson, spilaði á sínum tíma 34 landsleiki og afi hans, Guðjón Þórðarson, spilaði einn landsleik.

Fátt markvert gerðist eftir það og lauk leiknum með öruggum 4:0-sigri Englands.

England 4:0 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Þá er leiknum lokið. 4:0 tap gegn Englendingum staðreynd.
mbl.is