Hverjir höfðu áhrif á feril Heimis Guðjónssonar?

Heimir Guðjónsson hefur fengið nokkrar tolleringarnar á sínum ferli.
Heimir Guðjónsson hefur fengið nokkrar tolleringarnar á sínum ferli. mbl.is/Golli

Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu karla, var gestur hjá Felix Bergssyni í útvarpsþættinum Fram og til baka á Rás2. 

Felix bað Heimi um að nefna fimm þjálfara sem höfðu áhrif á hans knattspyrnuferil en Heimir gat sér gott orð sem leikmaður á Íslandsmótinu áður en hann fór út í þjálfun fyrir þá sem ekki vita. 

Heimir nefndi þá Atla Helgason og Lárus Loftsson sem þjálfuðu hann í yngri flokkum hjá KR. Þá nefndi hann Guðjón Þórðarson sem þjálfaði Heimi bæði hjá KA og KR í meistaraflokki. Heimir þurfti ekki að velja eingöngu þjálfara sem hann hefði unnið með sjálfur og fór því út fyrir landsteinana og nefndi goðsögnina hollensku, Rinus Michels. Loks nefndi hann Trevor Brooking sem með leikstíl sínum sem leikmaður West Ham hafi haft mikil áhrif á sig sem miðtengilið og fór því aðeins út fyrir efnið en færði fyrir því góð rök. 

Umsagnir Heimis um þessa menn má heyra í þættinum

Spurður um hvert væri besta lið sem Heimir hefði þjálfað þá hugsaði Heimir sig aðeins um og nefndi FH-liðið árið 2009. 

Guðjón Þórðarson á hliðarlínunni í bikarúrslitaleik KR og Fram árið …
Guðjón Þórðarson á hliðarlínunni í bikarúrslitaleik KR og Fram árið 1995. KR varð tvívegis bikarmeistari undir stjórn Guðjóns og var Heimir í stóru hlutverki í báðum tilfellum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is