Ísland nær öruggt á EM

Willum Þór Willumsson fagnar marki gegn Ítalíu.
Willum Þór Willumsson fagnar marki gegn Ítalíu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska U21-árs karlalandsliðið í knattspyrnu mun að öllum líkindum leika í lokakeppni EM í annað sinn á næsta ári en keppnin fer fram í Ungverjalandi og Slóveníu.

Þessi staða varð ljós eftir að Ítalía vann 4:1-heimasigur á Svíþjóð í lokaumferðinni í gær og tryggði sér toppsætið.

Undankeppnin samanstóð af níu riðlum, í átta þeirra voru sex lið og í einum fimm lið. Þau níu lið sem unnu riðla sína fara beint á EM. Þá fara þau fimm lið sem hafa bestan árangur í öðru sæti einnig áfram í lokakeppnina og verður íslenska liðið væntanlega eitt af þeim en þó verður að bóka sæti okkar í lokakeppninni með fyrirvara.

Ísland átti að mæta Armeníu á Kýpur í lokaleiknum í gær en vegna stríðsástandsins í Armeníu var síðustu leikjum liðsins aflýst. Eins og staðan í riðlinum er akkúrat núna, þá situr Ítalía á toppnum með 25 stig og Írland er í öðru sæti með 19 stig er bæði lið hafa spilað alla tíu leikina sína. Ísland er í þriðja sæti með 18 stig og níu leiki spilaða. Gert er ráð fyrir því að Íslandi verði úrskurðaður 3:0-sigur gegn Armeníu og með því færi liðið upp í annað sætið og væri jafnframt eitt af þeim fimm liðum með bestan árangur þar. Verði raunin þessi fer Ísland á EM.

„Það er nú þannig í fótboltanum að gera aldrei ráð fyrir neinu, en skilningurinn er þannig,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen, annar þjálfara U21 árs landsliðsins í samtali við Morgunblaðið í gær. „Þú mátt óska mér til hamingju með sætið á EM og ég segi takk með fyrirvara.“

Lærdómsríkt ferðalag

Eiður og Arnar Þór Viðarsson tóku við þjálfun liðsins í ársbyrjun 2019. Liðið hóf svo undankeppnina fyrir EM í september sama ár og var verkefnið ærið, enda Ísland með Ítalíu, Írlandi og Svíþjóð í riðli.

„Írland var fyrir neðan okkur í styrkleikaflokki þegar það er dregið í þennan riðil og svo reynast þeir vera eitt sterkasta liðið. Þetta voru fjögur lið að berjast um tvö sæti, það sést á stigatöflunni,“ sagði Eiður sem kveðst stoltur af árangri liðsins.

„Ef við gefum okkur það að við hefðum unnið Armeníu í síðasta leiknum, ég tel að við hefðum gert það, þá erum við að vinna sjö leiki af tíu í riðlinum. Og þetta er alveg djöfullegur riðill!

„Við fengum einn skell í Svíþjóð en lagfærum það strax, vinnum þá heima og Íra. Það var margt lærdómsríkt í þessu ferðalagi.“

Greinina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »