Vestfirðingar halda Spánverjanum

Nacho Gil í leik gegn Leikni í Breiðholtinu.
Nacho Gil í leik gegn Leikni í Breiðholtinu. mbl.is/Íris

Spánverjinn Nacho Gil hefur gert nýjan samning við Vestra og mun leika áfram með liðinu í næstefstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. 

Vestri greinir frá þessu á heimasíðu félagsins. Gil kom til Vestra frá Þór á Akureyri í fyrra og gerði þá eins árs samning. 

Gil fann sig vel í liði Vestra og skoraði til að mynda þrennu gegn ÍBV. Bjuggust því einhverjir við því að lið í efstu deild myndu sýna Gil áhuga og eru Vestfirðingar greinilega alsælir með að halda Spánverjanum. 

Nacho, sem var einn af okkar bestu leikmönnum á síðasta tímabili og í liði ársins 2020, verður gríðarlega mikilvægur hlekkur í þeirri uppbyggingu sem á sér stað hjá okkur,“ segir meðal annars i tilkynningunni. 

Þjálfarinn reyndi Bjarni Jóhannsson lét af störfum hjá Vestra í haust og Ísfirðingurinn Heiðar Birnir Thorleifsson er tekinn við. 

mbl.is