Guðjón verður ekki áfram í Ólafsvík

Guðjón Þórðarson eftir undirskrift í Ólafsvík í júlí í sumar.
Guðjón Þórðarson eftir undirskrift í Ólafsvík í júlí í sumar. Ljósmynd/Víkingur

Karlalið Víkings í Ólafsvík í knattspyrnu mun skipta um þjálfara og mun ekki semja aftur við Skagamanninn Guðjón Þórðarson. 

Guðjón segir frá þessu á samfélagsmiðlum. Hjá Guðjóni kemur fram að hann hafi haft áhuga á því að stýra Víkingi áfram en hann tók við liðinu á miðju sumri eftir að Jóni Páli Pálmasyni var sagt upp störfum. Liðið var í 9. sæti í næstefstu deild þegar Íslandsmótinu var aflýst. Guðjón samdi við Víking út keppnistímabilið og er samningurinn því runninn út. 

Forráðamenn Víkings og Guðjón ræddu um áframhaldandi samstarf en náðu ekki saman og Guðjón þakkar fyrir „sérstaklega gott samstarf“. Guðjón segist líta svo á að kröfur hans í þeim viðræðum hafi verið sanngjarnar. 

Ljóst er orðið að ég verð ekki í þjálfari Víkings Ólafsvík á næstu leiktíð þótt ég hafi haft áhuga á því. Mismunandi áherslur sem leiddu til þess að ekki náðist samkomulag um framhald á samstarfi. Þrátt fyrir að ég hafi gert þeim tilboð sem ég tel að hafi verið mjög sanngjarnt miðað við gefnar forsendur og mun lægra en forveri minn í starfi hafði. Ég óska Víkingum alls hins besta og þakka samstarfið. Leikmönnum, aðstoðarmanni og öðru samstarfsfólki vil ég þakka sérstaklega fyrir gott samstarf. Fótboltakveðja,“ skrifar Guðjón. 

mbl.is