Hefur áhuga á að taka við landsliðinu

Freyr Alexandersson ræðir við Erik Hamrén.
Freyr Alexandersson ræðir við Erik Hamrén. mbl.is/Kristinn Magnússon

Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta síðustu ár viðurkennir í samtali við vefmiðilinn Fótbolta.net að hann hafi áhuga á að taka við sem landsliðsþjálfari, en Erik Hamrén tilkynnti á dögunum að hann myndi hætta með liðið.

„Það er erfitt að segja að maður hafi ekki áhuga á því þegar maður er svona tengdur liðinu. Það eru mikil tengsl við leikmenn og maður hefur verið lengi með þeim og starfsfólkinu. Það er búið að búa til ákveðinn kúltúr og vinnuferla sem að maður vill að haldi áfram," sagði Freyr við Fótbolta.net.

„Auðvitað langar manni alltaf að þjálfa landsliðið en kannski bara einhvern tímann seinna. Ég yrði ekkert sár ef það yrði niðurstaðan,“ bætti hann við.

Freyr hefur unnið hjá KSÍ síðan 2013 og á sjö árum þjálfað kvennalandsliðið, njósnað og leikgreint fyrir karlalandsliðið og loks verið aðstoðarþjálfari karlaliðsins. Hefur hann á þeim tíma farið á þrjú stórmót, eitt með kvennalandsliðinu og tvö með karlalandsliðinu. 

Freyr er nú í Katar þar sem hann verður aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar hjá Al-Arabi í efstu deild. Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson leikur með liðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert