Hefur verið draumi líkast

Alfons Sampsted varð Noregsmeistari með Bodö/Glimt í gær.
Alfons Sampsted varð Noregsmeistari með Bodö/Glimt í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Alfons Sampsted rak smiðshöggið á góða viku í gærkvöldi er hann varð norskur deildarmeistari með félagsliði sínu Bodö/Glimt. U21-árs landslið Íslands, þar sem Alfons er fyrirliði, tryggði sér fyrr í vikunni sæti í lokakeppni Evrópumeistaramótsins á næsta ári sem haldið verður í Slóveníu og Ungverjalandi.

Norski meistaratitillinn var í höfn eftir 2:1-sigur á Strömsgodset í úrvalsdeildinni í gærkvöldi en Alfons og félagar hafa haft ótrúlega yfirburði í deildinni. Það eru enn þá fimm umferðir eftir en ekkert lið getur náð Bodö/Glimt sem er með 68 stig eftir 25 umferðir, átján stigum meira en Molde í öðru sæti. Alfons lagði upp seinna mark heimamanna er hann spilaði allan leikinn í hægri bakverðinum og mætti félögum sínum í U21-árs landsliðinu. Valdimar Þór Ingimundarson spilaði einnig allan leikinn og skoraði mark gestanna en Ari Leifsson sat á varamannabekknum.

Lygilegur uppgangur

„Þeir einu sem trúa þessu erum við sjálfir, þetta er svona hálflygilegt,“ sagði glaðvær Alfons Sampsted í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, nýkrýndur norskur meistari.

Þetta er fyrsti meistaratitill Bodö/Glimt í sögunni en félagið hefur vakið heimsathygli fyrir framgöngu sína. Blaðamaðurinn Rory Smith bauð lesendum sínum í The New York Times upp á frásögn af félaginu sem hefur boðið lögmálum knattspyrnunnar birginn. Í Bodö búa um 50 þúsund manns og hefur knattspyrnuliðið ekki unnið til mikilla afreka. Liðið var í B-deildinni árið 2017 en hafnaði í öðru sæti efstu deildar í fyrra og hefur nú farið alla leið, þrátt fyrir að vera ekki nálægt því að eyða sömu fjármunum í leikmannahópinn sinn og stærstu lið Noregs gera. Liðið er búið að skora 85 mörk í 25 leikjum og aðeins fengið á sig 28. Sigrarnir eru 22, jafntefli tvö og aðeins einn leikur hefur tapast. Þá stóð liðið í ítalska stórveldinu AC Milan í Evrópudeildinni, tapaði naumlega 3:2 á San Síró í Milanó.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert