Landsliðskona á leið í Val

Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Svíþjóð í …
Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Svíþjóð í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona Íslands í knattspyrnu og leikmaður Selfoss, er á leið í Val samkvæmt heimildum mbl.is.

Dagný, sem er 29 ára gömul, snéri heim úr atvinnumennsku síðasta haust og samdi við Selfoss. Hún lék þrettán leiki með liðinu í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, í sumar þar sem hún skoraði fimm mörk.

Miðjumaðurinn þekkir vel til á Hlíðarenda en hún lék með liðinu frá 2007 til ársins 2013 og varð þrívegis Íslandsmeistari með liðinu, 2007, 2008 og 2009. Þá varð hún einnig bikarmeistari með liðinu 2010 og 2011.

Dagný hefur leikið með Bayern München og Portland Thorns á atvinnumannaferli sínum en hún á að baki 118 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 44 mörk.

Þá á hún að baki 90 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 29 mörk.

Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með Breiðbliki gegn Val sumarið …
Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með Breiðbliki gegn Val sumarið 2017. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þá hefur Valur einnig sett sig í samband við Svövu Rós Guðmundsdóttur um að snúa heim úr atvinnumennsku og semja við félagið samkvæmt heimildum mbl.is.

Svava Rós er 25 ára gömul en hún gekk til liðs við Kristianstad frá Röa í Noregi árið 2018 og leikur þar í dag. Hún er uppalin á Hlíðarenda en gekk til liðs við Breiðablik frá Val fyrir tímabilð 2015.

Svava Rós getur spilað bæði sem kantmaður og framherji en hún varð Íslandsmeistari með Breiðabliki árið 2015.

Hún á að baki 103 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 26 mörk og þá á hún að baki 22 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert