Gunnar ráðinn þjálfari Ólafsvíkinga

Gunnar Einarsson, til vinstri, við undirskriftina ásamt Jóhanni Péturssyni formanni …
Gunnar Einarsson, til vinstri, við undirskriftina ásamt Jóhanni Péturssyni formanni knattspyrnudeildar Víkings. Ljósmynd/Víkingur Ó.

Gunnar Einarsson hefur verið ráðinn þjálfari 1. deildarliðs Víkings frá Ólafsvík í knattspyrnu en hann hefur samið við félagið til tveggja ára. Hann tekur við af Guðjóni Þórðarsyni sem tók við liðinu í júlímánuði.

Gunnar er 44 ára gamall og lék á sínum tíma með KR og Val þar sem hann varð alls fjórum sinnum Íslandsmeistari en einnig með Víkingi R. og Leikni R. undir lok ferilsins. Alls spilaði hann 208 deildaleiki hér á landi, þar af 143 í úrvalsdeildinni, á árunum 1995 til 2012.

Hann lék ennfremur sem atvinnumaður með Brentford á Englandi og hollensku liðunum Roda, Venlo og Maastricht. Gunnar lék einn A-landsleik fyrir Íslands hönd.

Hann þjálfaði Akranesliðið Kára í 2. deild karla á síðasta tímabili en hefur áður þjálfað Leikni í Reykjavík árið 2012 og yngri flokka hjá Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert