Kröfum Fram og KR hafnað

Stjórn KSÍ ásamt Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra. Ragnhildi Skúladóttur vantar á …
Stjórn KSÍ ásamt Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra. Ragnhildi Skúladóttur vantar á myndina. Ljósmynd/KSÍ

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ segir bráðabirgðareglugerð KSÍ vera í samræmi við lög sambandsins en nefndin úrskurðaði í málum Fram og KR í gær og var tilkynnt um niðurstöðuna í dag. 

Um tvö mál er að ræða en vill þannig til að þau eru afgreidd á sama tíma. KR vildi láta reyna á hvort bráðabirgðareglugerðin standist lög KSÍ. Fram vildi fá úr því skorið hvort rétt væri að Leiknir fengi sæti í efstu deild að ári þegar Leiknir og Fram hefðu verið með jafn mörg stig þegar hætt var keppni vegna sóttvarnarreglna. 

Úrskurður í máli Fram

Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að ekkert mæli því gegn í þessu máli að stjórn KSÍ beiti ákvæði 21. gr. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót þegar svo háttar til að tvö lið standa jöfn að stigum til þess að skera úr um endanlega röðun liðanna í stigakeppni á grundvelli markatölu. Samkvæmt þessu var stjórn KSÍ bæði rétt og skylt að leysa úr þeirri stöðu sem upp var komin með þessum hætti,“ segir meðal annars í niðurstöðukafla vegna kæru Fram.

Úrskurður í máli KR

Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að stjórn KSÍ hafi með setningu ofangreindrar reglugerðar [Covid-19 reglugerð] verið að bregðast við meiriháttar utanaðkomandi atburðum. Ákvæði reglugerðarinnar lúta að því með hvaða hætti ljúka skuli mótum sem ekki tekst að ljúka vegna Covid-19, þar sem slíkum ákvæðum var ekki til að dreifa í reglugerðarsafni KSÍ. Með vísan til þessa fellst aga- og úrskurðarnefnd á sjónarmið kærða í málinu um að reglugerðin breyti ekki leikjafyrirkomulagi Íslandsmótsins. Samkvæmt því stangast reglugerðin ekki á við lög KSÍ eins og kærandi heldur fram,“ segir meðal annars í niðurstöðukafla vegna kæru KR.

Málunum er ekki endilega lokið þar sem félögin geta áfrýjað til Áfrýjunarnefndar KSÍ. Sú nefnd hefur þegar fengið málin inn á borð til sín en vísaði þeim aftur til fyrra stigs, þ.e.a.s Aga-og úrskurðarnefndar, sem hafði vísað málinu frá. Áfrýjunarnefndin taldi sem sagt að Aga- og úrskurðarnefndin ætti að taka málið fyrir efnislega sem nú hefur verið gert. 

mbl.is