Frábær endurkomusigur í Slóvakíu

Elín Metta Jensen í baráttunni í fyrri leik liðanna á …
Elín Metta Jensen í baráttunni í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli í september 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann frábæran 3:1 sigur gegn því slóvakíska í Senec í Slóvakíu í F-riðli undankeppni EM í kvöld. Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði tvö mörk, bæði úr vítum, og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eitt.

Eftir dapran fyrri hálfleik þar sem íslenska liðið var 0:1 undir komu leikmenn inn í síðari hálfleikinn af miklum krafti. Eina mark fyrri hálfleiks skoraði Mária Mikolajová á 25. mínútu þegar hún náði góðu skoti fyrir utan teig sem endaði í bláhorninu.

Á 61. mínútu kom jöfnunarmark íslenska liðsins. Þá átti Agla María Albertsdóttir frábæra sendingu yfir á Sveindísi Jane Jónsdóttur. Sveindís lagði boltann út í teiginn á Berglindi sem skoraði örugglega úr miðjum teignum.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk tækifæri í byrjunarliðinu og skoraði.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk tækifæri í byrjunarliðinu og skoraði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á 65. mínútu fékk Sara Björk Gunnarsdóttir víti eftir að Diana Bartovicová braut klaufalega á henni. Sara Björk fór sjálf á punktinn en Mária Korenciová í marki Slóvakíu varði frá henni.

Dómarinn mat það hins vegar sem svo að Korenciová hafi farið of snemma af línunni og því fékk Sara Björk annað tækifæri. Þar gerði hún engin mistök og sendi Korenciová í vitlaust horn. Staðan orðin 2:1 og Ísland búið að snúa taflinu við.

Á 77. mínútu slapp Elín Metta Jensen í gegn. Patrícia Fischerová togaði hana þá niður í teignum og fékk gult spjald að launum, sem hefði þólíklega átt að vera rautt. Sara Björk steig aftur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan orðin 3:1 og Ísland komið í vænlega stöðu.

Íslenska liðið var áfram hættulegt í öllum sínum sóknarlotum en sigldi að lokum sterkum 3:1 sigri heim.

Með sigrinum gulltryggir Ísland 2. sætið í riðlinum og er því öruggt með að minnsta kosti umspilssæti fyrir EM.

Ísland er nú með 16 stig eftir sjö leiki og á eftir að spila við Ungverjaland í Búdapest á þriðjudaginn kemur. Með sigri í þeim leik er möguleiki á að íslenska liðið fari beint á EM, sem eitt þriggja liða með bestan árangur í 2. sæti undankeppninnar.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Slóvakía 1:3 Ísland opna loka
93. mín. Leik lokið Þá er leiknum lokið. Frábær 3:1 endurkomusigur Íslands staðreynd!
mbl.is