Karlalandsliðið í þriðja styrkleikaflokki

Íslenska karlalandsliðið fellur um sjö sæti á nýjum heimslista FIFA.
Íslenska karlalandsliðið fellur um sjö sæti á nýjum heimslista FIFA. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er í 46. sæti á nýjum heimslista FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, en listinn var birtur í morgun.

Karlalandsliðið fellur um sjö sæti frá því í október en liðið er í 27. sæti á meðal Evrópuþjóðanna.

Þetta þýðir að Ísland verður í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður í undankeppni HM 2022 í Zürich í Sviss, 7. desember en 55 þjóðum Evrópu er raðað í sex styrkleikaflokka fyrir dráttinn út frá þessum heimslista.

Frá því í október hefur Ísland mætt Ungverjalandi, Danmörku og Englandi en liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum.

Tapið gegn Ungverjum var í úrslitum umspils um laust sæti á EM á meðan töpin gegn Danmörku og Englandi voru í Þjóðadeild UEFA.

Íslenska liðið gæti því fengið ansi strembinn riðil í undankeppni HM en Belgía, Frakkland, England, Portúgal, Spánn, Ítalía, Króatía, Danmörk, Þýskaland og Holland eru í styrkleikaflokki 1.

Sviss, Wales, Pólland, Svíþjóð, Austurríki, Úkraína, Serbía, Tyrkland, Slóvakía og Rúmenía eru í styrkleikaflokki 2.

Ísland er svo í styrkleikaflokki 3 ásamt Rússlandi, Ungverjalandi, Írlandi, Tékklandi, Noregi, Norður-Írlandi, Skotlandi, Grikklandi og Finnlandi.

Í fjórða flokki eru Bosnía, Slóvenía, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Albanía, Búlgaría, Ísrael, Hvíta-Rússland, Georgía og Lúxemborg.

Í fimmta flokki eru Armenía, Kýpur, Færeyjar, Aserbaídsjan, Eistland, Kósóvó, Kasakstan, Litháen, Lettland og Andorra.

Í sjötta flokki eru Malta, Moldóva, Liechtenstein, Gíbraltar og San Marínó.

Undanriðlar HM verða tíu talsins og í hverjum riðli verður eitt lið úr hverjum styrkleikaflokki frá eitt til fimm. Í fimm riðlum verða síðan sex lið og þar bætist við eitt lið úr sjötta flokki.

Sigurvegarar riðlanna tíu komast beint á HM 2022 í Katar. Liðin tíu sem enda í öðru sæti fara síðan í umspil ásamt tveimur liðum sem unnu sína riðla i í Þjóðadeild UEFA en komast ekki beint á HM eða í umspilið í gegnum undankeppnina. Þrír sigurvegarar í umspilsriðlunum fá þrjú síðustu sæti Evrópu á HM 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert