Var farin að sakna þess mikið að spila fótbolta

Agla María Albertsdóttir
Agla María Albertsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Agla María Albertsdóttir vonast til þess að fá tækifæri í byrjunarliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í undankeppni EM á Szusza Ferenc-vellinum í Búdapest á morgun.

Sóknarkonan, sem er 21 árs gömul, kom inn í byrjunarlið íslenska liðsins gegn Slóvakíu í Senec í Slóvakíu á fimmtudaginn síðasta og átti mjög góðan leik í 3:1-sigri íslenska liðsins.

Íslenska liðið er með 16 stig í öðru sæti F-riðils undankeppninnar en þrjú lið af þeim níu, sem enda í öðru sæti síns riðils undankeppninnar, komast beint í lokakeppni EM 2022 sem fram fer á Englandi. Hin sex liðin, sem enda í öðru sæti síns riðils, þurfa hins vegar að fara í umspil um sæti í lokakeppninni.

„Ég fann aðeins fyrir þreytu undir lokin í leiknum gegn Slóvakíu en þetta var alls ekkert alvarlegt,“ sagði Agla María í samtali við Morgunblaðið.

„Við vorum ósamstiga í pressunni í fyrri hálfleik í Slóvakíuleiknum en í seinni hálfleik var allt annar bragur á þessu hjá okkur. Þá fórum við saman í pressuna og þá gekk þetta betur upp. Það varð allt auðveldara einhvern veginn á vellinum en þrátt fyrir slakan fyrri hálfleik fengum við alveg tækifæri til þess að skora.

Það er hellingur af hlutum sem við getum tekið með okkur inn í Ungverjaleikinn og leikurinn gegn Slóvakíu sýndi það bara svart á hvítu hversu hættulegt það getur verið að lenda undir gegn svona liðum. Baráttan um bestan árangur liða í öðru sæti riðlakeppninnar er mjög hörð þannig að við megum alls ekki misstíga okkur í Ungverjalandi,“ bætti Agla María við en hún á að baki 32 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk.

Sjáðu greinina og viðtalið við Öglu í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »