Eins og að missa náinn ættingja að fara ekki á EM

Gunnleifur Gunnleifsson á magnaðan feril að baki.
Gunnleifur Gunnleifsson á magnaðan feril að baki. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Kannski af því að ég er 45 ára,“ svaraði Gunnleifur Gunnleifsson hlæjandi aðspurður hvers vegna hann væri að leggja markvarðarhanskana og takkaskóna á hilluna eftir langan og farsælan feril. Gunnleifur er leikjahæsti leikmaður í sögu íslenskrar deildarkeppni í knattspyrnu, en hann tilkynnti á dögunum að hann væri hættur.

Gunnleifur spilaði 439 deildarleiki á Íslandi en hann lék fyrst með HK árið 1994. Hann spilaði 304 leiki í efstu deild með KR, Keflavík, HK, FH og Breiðabliki. Þá á hann 26 A-landsleiki á árunum 2000 til 2014. Gunnleifur lék ekkert í sumar þar sem hann var aðstoðarþjálfari og varamarkvörður Breiðabliks eftir að félagið sótti Anton Ara Einarsson frá Val.

Elskar allt við fótbolta

„Ég var eiginlega hættur að spila í sumar og var bara að þjálfa. Mér fannst ágætt að gera þetta formlegt núna og þakka fyrir mig,“ sagði Gunnleifur. Hann lék alla 22 leiki Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni á síðasta ári, þá á 44. aldursári. „Munurinn núna og þá er að hausinn á mér er kominn annað. Ég er kominn út í þjálfun og mig langar að styðja við bakið á Antoni. Ég er sáttur og stoltur af ferlinum,“ sagði markvörðurinn við Morgunblaðið.

Gunnleifur segir það ekki hafa komið til greina að semja við annað félag en Breiðablik og halda áfram að spila, þrátt fyrir mikla ástríðu fyrir leiknum. „Nei. Ég hef oft verið spurður hvað ég ætla að gera eftir ferilinn og fólk virðist hafa svakalegar áhyggjur af mér. Ég elska íþróttina og allt við hana, ég elska að vera í kringum hana og vera í kringum aðra fótboltamenn, ég elska lyktina af búningunum og allt sem viðkemur fótbolta. Þótt ég sé hættur að spila verð ég áfram í kringum fótboltann og því er ekki eins erfitt að hætta.“

Sjáðu viðtalið við Gunnleif í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert