Ísland á EM

Íslensku stelpurnar fagna marki Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur í leiknum gegn …
Íslensku stelpurnar fagna marki Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur í leiknum gegn Ungverjalandi í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er búið að tryggja sér sæti á Evrópumótinu sem fer fram á Englandi sumarið 2022. Íslenska liðið er þar með komið á EM í fjórða skiptið í röð.

Ísland er eitt þriggja liða með bestan árangur í 2. sæti í undankeppninni og fer því beint á mótið. Hagstæð úrslit í öðrum riðlum undankeppninnar tryggðu það endanlega í kvöld. Hlaut íslenska liðið 19 stig í átta leikjum, með markatöluna 25:5 í F-riðlinum.

Fyrr í dag vann Ísland 1:0 sigur gegn Ungverjalandi og þurftu því leikmenn og starfsteymi liðsins, sem og allir landsmenn, að bíða um sinn eftir niðurstöðunni.

Austurríki tókst ekki að sigra Serbíu með þriggja marka mun og leikur Belgíu og Sviss endaði ekki með jafntefli. Þar með varð ljóst að Ísland yrði aldrei neðar en í þriðja sæti þeirra þriggja liða sem að lokum enda í öðru sæti undanriðlanna níu.

Íslenska kvennalandsliðið tekur því þátt á EM í fjórða skiptið í röð. Fyrst tók liðið þátt árið 2009 í Finnlandi, þá árið 2013 í Svíþjóð, svo árið 2017 í Hollandi og nú loks í Englandi árið 2022.

Besti árangur liðsins til þessa kom árið 2013, þegar það komst upp úr riðli sínum og fór áfram í átta liða úrslit, en laut þar í lægra haldi gegn Svíþjóð.

mbl.is