Spennandi að fylgjast með leikjunum í kvöld

Elín Metta Jensen í leiknum í dag.
Elín Metta Jensen í leiknum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Það var frábært að ná að landa þessum sigri. Þetta var kannski ekkert sérstakur leikur en mikill léttir fyrir liðið að þremur stigum. Það var mjög mikilvægt,“ sagði Elín Metta Jensen í samtali við mbl.is eftir 1:0 sigur íslenska kvennalandsliðsins í undankeppni EM í knattspyrnu í dag.

„Ég kannski saknaði þess að við myndum skapa okkur meira fram á við. En mér fannst þær ungversku koma sterkar til leiks. Við höfum alveg sýnt að við getum skorað meira á móti þessu liði og það hefði auðvitað verið óskandi í dag en við vonum bara að þessi úrslit séu nóg fyrir okkur til þess að komast beint á EM. Það væri náttúrulega frábært,“ bætti hún við.

Elín Metta kvaðst vissulega svekkt að liðið hafi ekki náð að skora fleiri mörk. „Já sem keppnismanneskja er maður það alltaf. Það var alveg hellingur í þessum leik sem mér fannst að við hefðum getað gert betur en auðvitað virkilega stabílt hjá okkur að halda hreinu og skora eitt mark. Það voru alveg ljósir punktar líka.“

Hún sagði það skrítið að þurfa að bíða eftir úrslitum úr öðrum leikjum upp á fá að vita hvort íslenska liðið sé komið beint á EM. Það er mjög sérstakt. Ég held að það verði kannski hringt frá einhverjum af þessum leikjum sem við þurfum að fylgjast með hérna á hótelinu okkar í Búdapest í kvöld. Þannig að það verður einhver eftirvænting hérna.“

Möguleiki er á að það komi ekki í ljós fyrr en í febrúar hvort liðið komist beint á EM eða fari í umspil. „Þá þyrftum við að bíða enn lengur. En við erum búnar að kynna okkur þetta aðeins og við vitum svona ca. með hvaða leikjum við þurfum að fylgjast með í kvöld og hvernig þeir þurfa að fara. Það er mjög spennandi,“ sagði Elín Metta að lokum.

mbl.is