Ekki sömu vitleysingarnir og ég var á þessum aldri

Hallbera Guðný Gísladóttir.
Hallbera Guðný Gísladóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona Íslands í knattspyrnu, gæti vel hugsað sér að ljúka ferlinum á EM í Englandi 2022.

Bakvörðurinn, sem er 34 ára gömul, hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu undanfarinn áratug en hún á að baki 117 landsleiki fyrir Ísland og er fjórða leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Hallbera er á leið á sitt þriðja stórmót með kvennalandsliðinu en hún var lykilmaður í Svíþjóð 2013 þegar liðið fór alla leið í átta liða úrslit og í Hollandi 2017 þegar Ísland féll úr leik í riðlakeppninni.

Ísland tyggði sæti sitt á EM 2022 með 1:0-sigri gegn Ungverjalandi í lokaleik sínum í riðlakeppninni en Ísland endaði riðlakeppnina sem eitt þriggja liða með bestan árangur í öðru sæti undankeppninnar og fer því beint á fjórða Evrópumótið í röð.

„Tilfinningin eftir leikinn gegn Ungverjalandi var mjög skrítin því við ætluðum okkur að vinna leikinn með meiri mun,“ sagði Hallbera í samtali við Morgunblaðið.

„Við gátum ekki leyft okkur að fagna, þannig séð, en við gátum heldur ekki leyft okkur að vera svekktar þar sem við náðum í þrjú stig. Andrúmsloftið var þess vegna frekar skrítið en að sama skapi gerðum við okkar og þess vegna var lítið annað að gera en að bíða eftir úrslitum úr öðrum leikjum.

Úrslitin úr fyrsta leiknum duttu ekki með okkur. Ég get alveg viðurkennt að sú hugsun skaut upp kollinum að þetta væri ekki að fara að detta með okkur, bara svona til þess að toppa árið 2020 endanlega. Sem betur fer duttu úrslitin í öðrum leikjum með okkur og eftir á þá var þetta mjög gaman.

Það var svona kosningavökustemning yfir þessu hjá okkur á meðan við fylgdumst með hinum leikjunum. Við ákváðum hins vegar að horfa ekki á leikina í sjónvarpinu heldur nýttum við tímann í að vígja nýja leikmenn inn í liðið. Við kíktum við og við inn á úrslitasíðurnar á netinu og það var svo fagnað vel og innilega þegar það varð ljóst að við værum á leiðinni á EM.“

Framtíðin björt

Bakvörðurinn hefur upplifað hæðir og lægðir á stórmótum í gegnum tíðina og er reynslunni ríkari.

„Maður var fljótur að gleyma sér í gleðinni á mótinu í Hollandi 2017 og fór mjög hátt upp í aðdraganda mótsins. Eftir mótið fór maður svo ansi langt niður enda gengið ekki gott og þegar maður hofir til baka þá er maður svo sannarlega reynslunni ríkari eftir þessi tvö stórmót. Það er algjörlega einstakt að taka þátt í svona móti og kannski ekkert skrítið að mæta til leiks á sitt fyrsta stórmót með stjörnur í augunum.

Ég hef hins vegar litlar áhyggjur af þessum ungu stelpum sem hafa verið að koma inn í hópinn að undanförnu enda allar mjög rútíneraðar og taktfastar stelpur. Þetta eru ekki sömu vitleysingarnir og ég og fleiri vorum á þeirra aldri. Þær eru allar með skýr markmið og miklir íþróttamenn þannig að framtíðin er virkilega björt hjá kvennalandsliðinu.“

Viðtalið í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert