Ætlum að vera í hörkusamkeppni

Þórður Ingason í marki Víkings á þarsíðasta tímabili.
Þórður Ingason í marki Víkings á þarsíðasta tímabili. Árni Sæberg

Þórður Ingason, markvörður Víkings, segist ekki hafa viljað yfirgefa liðið þrátt fyrir að hafa verið varamarkvörður liðsins í Pepsi Max-deildinni á síðasta tímabili. Samdi hann þess í stað að nýju til tveggja ára.

Á blaðamannafundi í Víkinni í dag sagði Þórður aðspurður um hvort honum hafi borist tilboð annars staðar frá: „Það voru einhverjar þreifingar hér og þar en mig langaði að vera áfram og berjast fyrir sæti mínu. Mér finnst gott að vera hérna, þetta er góður klúbbur. Ég er búinn að eignast góða félaga í liðinu og mig langaði bara ekki það mikið að fara.“

Þórður sagðist ákveðinn í að berjast við Ingvar Jónsson um markvarðarstöðuna. „Við ætlum að vera í hörkusamkeppni auðvitað. Ég vil spila, hann vill spila og svo kemur í ljós hver fær að gera það.“

Víkingi gekk illa í deildinni á síðasta tímabili og endaði í 10. sæti. Þórður sagði erfitt að finna eitthvað eitt sem hafi farið úrskeiðis þar. „Það er kannski erfitt að benda á einhvern einn hlut, ég hreinlega veit það ekki. Heilt yfir gekk rosalega fátt upp hjá okkur. Það er kannski klisja en leikir sem við hefðum átt að vinna enduðu með jafntefli. Við náðum ekki að klára þessa leiki. Svo voru meiðsli og annað vesen.“

Hann kvaðst spenntur fyrir næsta tímabili. „Mér líst bara vel á það. Ég er ánægður með þessa náunga sem við erum að fá inn, Pablo [Punyed] og Axel [Frey Harðarson], þetta eru hörkuleikmenn. Svo er ég bara mjög spenntur að byrja að æfa fótbolta!“ sagði Þórður að lokum.

mbl.is