Hefði séð eftir því að halda ekki áfram

Kári Árnason vinnur skallabolta í leik gegn FH í sumar.
Kári Árnason vinnur skallabolta í leik gegn FH í sumar. Árni Sæberg

Kári Árnason segist hafa íhugað að hætta knattspyrnuiðkun áður en hann ákvað að gera nýjan eins árs samning við Víking í Pepsi Max-deildinni.

„Já það kom alveg upp í hugann en á endanum ákvað ég að taka eitt tímabil í viðbót í ljósi aðstæðna. Þetta var hundleiðinlegt tímabil. Ekki bara fyrir þær sakir að við stóðum okkur ekki jafn vel og við ætluðum, heldur var það Covid tengt. Engir áhorfendur, þetta var bara leiðinlegt fyrir alla, bæði stuðningsmenn og leikmenn,“ sagði Kári í samtali við mbl.is á blaðamannafundi í Víkinni í dag.

„Svo Ungverjaland líka, vonbrigðin sem voru þar, þetta hefði endað á þvílíkum lágpunkti. Það var eiginlega ekkert annað í boði, ég hugsa að ég myndi alltaf sjá eftir því að hafa ekki haldið áfram og reynt að bæta úr þessu. Á síðasta tímabili var ég líka svolítið meiðslahrjáður, bara óheppnismeiðsli, lenti illa o.s.frv. Ég var alltaf að reyna að halda mér í standi fyrir landsleiki þannig að Víkingur sat svolítið á hakanum, sem ég var ekki ánægður með, og ég ætla að reyna að gera allt sem í mínu valdi stendur til að færa okkur upp töfluna á næsta ári,“ bætti hann við.

Víkingi gekk illa á liðnu tímabili og endaði í 10. sæti. Kári segir ekkert eitt vera ástæðuna fyrir því. „Það er hægt að finna endalausar ástæður og afsakanir fyrir því en við byrjuðum tímabilið ekki nógu vel. Íslandsmótið er þannig að fyrsta liðið sem fer á einhvers konar „rönn“ er mjög líklegt til þess að vinna mótið hreinlega.“

Hann sagði það hafa verið dýrt að tapa fjórum stigum í fyrstu tveimur leikjunum gegn fallliðum Gróttu og Fjölnis. Eftir þá leiki spilaði Víkingur við FH, KR og Val. „Við klárum FH mjög sannfærandi, þá finnst mér liðið vera komið af stað eftir ekki nógu góða spilamennsku í byrjun.

Svo kemur KR-fíaskóið og það svona tekur svolítið „momentum-ið.“ Við byrjuðum þann leik mjög vel og vorum með tögl og hagldir í leiknum en svo bara kemur þetta dómarafíaskó og við töpum þeim leik, hvort sem þessi rauðu spjöld eigi rétt á sér eða ekki, það er bara orðin þreytt umræða. En þá er „momentum-ið“ svona tekið úr þessu og við töpum gegn Val í næstu umferð þannig að þetta var orðið erfitt. Þá erum við bara búnir með 5-6 leiki og voða fá stig komin í hús.“

„Svo fannst mér hin liðin líka vera farin lesa okkur þegar leið á tímabilið, eins og þau væru bara komin með útskýringu á því hvernig hægt sé að vinna liðið. Við þurfum að koma í veg fyrir það og einfaldlega vera betri á næsta ári,“ sagði Kári einnig.

Honum líst ágætlega á næsta tímabil. „Auðvitað misstum við frábæran leikmann í Óttari en við vorum svolítið að bíða og vona að hann myndi skora öll mörkin okkar og sjá um sóknarleikinn, en það er ekki svona einfalt í fótbolta. Nú er bara kominn tími fyrir aðra að stíga upp og við sjáum alveg að það eru mjög mikil gæði í strákunum, en þeir þurfa bara aðeins að eldast og fá kjöt á beinin og kannski vera aggressívari. Það er ýmislegt sem er hægt að fara yfir og við munum gera það,“ sagði Kári að lokum.

mbl.is