Sjálfsagt mál að leyfa öðrum að taka við keflinu

Rakel Hönnudóttir lætur staðar numið með landsliðinu.
Rakel Hönnudóttir lætur staðar numið með landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst þetta vera góður tímapunktur að skilja við liðið,“ sagði knattspyrnukonan Rakel Hönnudóttir, leikmaður Breiðabliks í úrvalsdeild kvenna, í samtali við Morgunblaðið en hún ákvað að leggja landsliðsskóna á hilluna í gær.

Rakel, sem er 31 árs gömul, á að baki 103 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað þrjú mörk en hún er níunda leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi ásamt Eddu Garðarsdóttur.

Rakel var í íslenska landsliðshópnum sem mætti Slóvakíu í Senec og Ungverjalandi í Búdapest í lokaleikjum sínum í undankeppni EM á dögunum.

Ísland vann báða leikina og tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins fjórða skiptið í röð en mótið fer fram á Englandi sumarið 2022. Til stóð að mótið færi fram næsta sumar en því var frestað vegna kórónuveirunnar.

Rakel hefur farið á þrjú Evrópumót með íslenska liðinu og íhugaði alvarlega að taka slaginn á fjórða stórmótinu í röð.

Of langur tími

„Ég var búin að ákveða að leggja landsliðsskóna á hilluna fyrir einhverju síðan. Það er engin ein ástæða sem trompar aðra og það er í raun ekkert sem býr að baki þessari ákvörðun. Mér fannst þetta bara komið gott ef svo má segja, sérstaklega eftir að ákveðið var að fresta lokakeppni EM um eitt ár.

Ef mótinu hefði ekki verið frestað þá er ég nokkuð viss um að ég hefði tekið eitt ár í viðbót með liðinu en mér fannst tvö ár einfaldlega of langur tími. Vissulega hefði verið gaman að fara á fjórða stórmótið með landsliðinu en af því verður ekki,“ bætti Rakel við en hún á að baki 215 leiki í efstu deild með uppeldisfélagi sínu Þór/KA og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 125 mörk.

Rakel lék sinn fyrsta landsleik gegn Póllandi á Algarve-mótinu í Portúgal í mars árið 2008, þá 19 ára gömul, en hún er fædd í lok desember.

Viðtalið við Rakel í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »