Dómstóllinn dæmir KSÍ í hag gegn KR og Fram

KR-ingar kærðu þá ákvörðun KSÍ að hætta keppni á Íslandsmóti …
KR-ingar kærðu þá ákvörðun KSÍ að hætta keppni á Íslandsmóti og bikarkeppni. mbl.is/Íris

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur staðfest úrskurð aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í máli KR gegn stjórn KSÍ og þá hefur dómstóllinn vísað máli Fram gegn stjórn KSÍ frá.

KR-ingar kærðu þá ákvörðun KSÍ að hætta keppni á Íslandsmóti og í bikarkeppni í lok október og láta bráðabirgðareglugerð um lyktir móta sem sett var í júlí ráða endanlegri niðurstöðu mótanna.

Framarar kærðu þá ákvörðun KSÍ að nota markatölu til að skera úr um sætaniðurröðun eftir að Íslandsmótinu var hætt en það þýddi að Leiknir R. fékk úrvalsdeildarsæti á betri markatölu en Fram.

Í niðurstöðukafla dómsins í máli KR segir:

„Ákvörðun stjórnar KSÍ 30. október 2020 byggir á Covid-reglugerð KSÍ sem sett var með stjórnskipulega réttum hætti eins og að framan greinir. Stjórn KSÍ framkvæmdi heildstætt mat á öllum aðstæðum, atvikum og áhrifum þess ef mótum yrði ekki lokið innan tímamarka reglugerðarinnar. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að aðstæður hafi verið með öðrum hætti en lýst hefur verið hér að framan og að mat stjórnar KSÍ hafi byggt á öðru en málaefnalegum sjónarmiðum þar sem mat á heildarhagsmunum aðildarfélaga KSÍ hafi verið hafðir í huga. Áfrýjunardómstóll KSÍ fellst því ekki á þá málsástæðu áfrýjanda að lokaákvörðun stjórnar KSÍ frá 30. október 2020 hafi ekki verið byggð á réttum lagalegum grundvelli og nauðsyn vegna meiriháttar utanaðkomandi atburðar.
Með vísan til þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ er hinn áfrýjaði úrskurður staðfestur.“

Í niðurstöðukafla dómsins í máli Fram segir m.a.:

„Í máli þessu hefur áfrýjandi uppi kröfur sem ætlað er að vera bindandi fyrir knattspyrnudeild Íþróttafélagsins Leiknis. Áfrýjandi hefur þrátt fyrir þetta ekki beint málssókn sinni að knattspyrnudeild Íþróttafélagsins Leiknis og hefur hann því ekki kost á að gæta hagsmuna sinna við meðferð málsins. Með vísan til ofangreinds er máli þessu vísað frá aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert