Ísland leikur 500. landsleikinn í Duisburg

Ísland og Þýskaland mættust síðast í Hamborg í undankeppni EM …
Ísland og Þýskaland mættust síðast í Hamborg í undankeppni EM árið 2003 og hér ver Oliver Kahn markvörður Þjóðverja frá Indriða Sigurðssyni úr dauðafæri. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Viðureign Þýskalands og Íslands í fyrstu umferð undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu sem fram fer þann 25. mars verður leikin í Duisburg á Schauinsland-Reisen-leikvanginum.

Hann rúmar ríflega 31 þúsund áhorfendur en þar var m.a. leikið í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í sumar. Völlurinn var tekinn í notkun árið 2004 og hefur verið heimavöllur Duisburg frá þeim tíma. Liðið leikur nú í þýsku C-deildinni eftir að hafa síðast verið í efstu deild tímabilið 2007-08.

Leikurinn verður sögulegur fyrir íslenska landsliðið því þetta verður 500. A-landsleikur karla frá upphafi, allt frá því Ísland tók á móti Danmörku á Melavellinum í fyrsta leik sínum árið 1946.

mbl.is