Atli leggur skóna á hilluna

Atli Guðnason í leik með FH.
Atli Guðnason í leik með FH. mbl.is/Golli

Atli Guðnason, einn reyndasti knattspyrnumaður landsins og burðarás í sigursælu liði FH um árabil, tilkynnti í dag að hann væri hættur að leika með liðinu.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu FH-inga þar sem Atli þakkar fyrir sig. Hann hefur spilað með meistaraflokki FH frá árinu 2004, að undanskildu hálfu öðru ári í byrjun ferilsins þar sem hann var í láni hjá HK og Fjölni. Atli varð sex sinnum Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með FH.

Þá er hann leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi með 285 leiki og sá fjórði markahæsti með 68 mörk. Hann er um leið fimmti leikjahæsti leikmaðurinn í efstu deild karla hérlendis frá upphafi. Atli hefur gefið næstflestar stoðsendingar allra leikmanna í deildinni frá árinu 1992.

Atli segir á Facebooksíðu FH: „Kæru FH-ingar. Nú er kominn tími til að setja punkt fyrir aftan mjög mörg skemmtileg ár og minningar sem ég mun eiga fyrir lífstíð. Ég hef verið ótrúlega lánsamur með að taka þátt í velgengninni hjá félaginu mínu og geng mjög stoltur frá borði. Ég er þakklátur svo ótrúlega mörgum sem gerðu það að verkum að ég náði þeim árangri sem ég náði. Takk kærlega fyrir mig. Áfram FH.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert