Stefnan er sett á Katar 2022

Verða þessir flestir eða allir með í landsleikjunum í mars?
Verða þessir flestir eða allir með í landsleikjunum í mars? mbl.is/Kristinn Magnússon

Tímamót. Orðið á ágætlega við um stöðu mála hjá karlalandsliði Íslands í fótbolta nú í árslok 2020. Liðið missti af því með allra minnsta mun að komast á þriðja stórmótið í röð þegar það tapaði á dramatískan hátt fyrir Ungverjum í Búdapest 12. nóvember og heldur nú inn í nýtt ár með nýjan þjálfara við stjórnvölinn.

Arnar Þór Viðarsson er tekinn við starfi landsliðsþjálfara af hinum sænska Erik Hamrén og er sá yngsti sem gegnir því síðan Eyjólfur Sverrisson tók við liðinu aðeins 37 ára gamall í ársbyrjun 2006.

Arnar lauk einmitt landsliðsferlinum með því að spila sinn 52. og síðasta landsleik undir stjórn Eyjólfs seint á árinu 2007, gegn Liechtenstein. Það var líka kveðjuleikur Eyjólfs með liðið en eins og Arnar tók hann við því eftir að hafa fyrst stýrt 21-árs landsliðinu um tveggja ára skeið.

Arnar er þó fimm árum eldri og jafnframt reyndari en Eyjólfur var á sínum tíma og hefur verið bæði aðal- og aðstoðarþjálfari hjá belgísku félögunum Cercle Brugge og Lokeren frá því hann lagði skóna á hilluna eftir tæplega tuttugu ára meistaraflokksferil og sautján ár í atvinnumennsku árið 2014.

Reyndir þótt óreyndir séu

Með Eið Smára Guðjohnsen sér við hlið mynda þeir reyndasta landsliðsþjálfarateymi sem um getur hérlendis, ef tekið er mið af reynslu þeirra sem leikmanna. Samanlagt léku þeir tæplega eitt þúsund deildaleiki með félagsliðum sínum. Eiður er leikjahæstur allra Íslendinga erlendis og Arnar er sá fimmti hæsti á þeim vettvangi. Sú reynsla á að geta reynst þeim ákaflega mikilvæg í starfi þótt þjálfaraferillinn sem slíkur sé ekki sérlega langur.

Þá hjálpar það eflaust að þeir Arnar og Eiður eru jafnaldrar og spiluðu fyrst saman 15 ára gamlir með drengjalandsliði Íslands árið 1993. Þar náðu þeir einmitt þeim árangri saman að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fór á Írlandi vorið 1994. Saman spiluðu þeir síðan fjölda A-landsleikja, voru samherjar hjá Cercle Brugge tímabilið 2012-2013 og náðu vel saman sem þjálfarar 21-árs landsliðsins sem er komið í úrslitakeppni EM undir þeirra handleiðslu.

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson fara beint í …
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson fara beint í stórleik gegn Þýskalandi í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu stig í húfi í fyrstu vikunni

Arnar og Eiður fá engan tíma til undirbúnings fyrir stóru verkefnin sem við blasa, þeir fá enga vináttuleiki í janúar eða önnur tækifæri til að hitta næsta landsliðshóp, því landsliðið mun ekki koma saman fyrr en nokkrum dögum fyrir leik gegn stórveldinu Þýskalandi á útivelli 25. mars. Það er fyrsti leikurinn í undankeppni HM 2022 og næstu sex daga á eftir fylgja útileikir gegn Armeníu og Liechtenstein. Það verða því níu stig í húfi strax í fyrstu vikunni sem þeir stjórna liðinu.

Landsliðsþjálfarar gera sér jafnan ferðir til hinna ýmsu landa til að fylgjast með sínum mönnum í leikjum og ræða við þá en á þessum tímum kórónuveirunnar verður það flóknara en áður og væntanlega mun undirbúningur Arnars og Eiðs fyrir leikina þrjá snúast um að fylgjast með mögulegum landsliðsmönnum úr fjarlægð og vera í sambandi við þá eftir því sem ástæða er til.

Verkefni landsliðsins á árinu 2021 er einfalt. Tíu leikir í undankeppni heimsmeistaramótsins þar sem íslenska liðið freistar þess að vinna sér sæti í lokakeppninni í Katar en hún fer fram í nóvember og desember árið 2022. Aðeins sigurliðið í riðlinum, þar sem andstæðingar eru áðurnefndar þrjár þjóðir ásamt Norður-Makedóníu og Rúmeníu, fer beint á HM en liðið í öðru sæti fer í umspil sem fram fer í mars 2022.

Þá mun liðið leika tvo vináttuleiki í júnímánuði, í Færeyjum og Póllandi. Sem sagt tólf leikir sem eru á dagskránni frá mars og fram í nóvember. Ljóst er að HM-riðillinn hefði getað orðið mun erfiðari og talsverðir möguleikar eru fyrir hendi. Ef allt fer eftir bókinni frægu gætu Ísland og Rúmenía barist um annað sætið í riðlinum, að því gefnu að fyrsta sætið sé frátekið fyrir stórveldið Þýskaland.

Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í 21-árs landsliðinu eru á …
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í 21-árs landsliðinu eru á leið í lokakeppni EM í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki útlit fyrir miklar breytingar

Arnar sagði strax á kynningarfundinum að kynslóðaskipti væru í raun ekki til í fótboltanum og alltaf yrði stillt upp sterkasta mögulega liði á hverjum tíma. Með því gaf hann til kynna að ekki yrði mikilla breytinga að vænta þegar hann velur sinn fyrsta landsliðshóp í marsmánuði. Þar verða eflaust valdir flestir þeirra sem skipuðu liðið í haust og endanlegt liðsval mun ráðast af meiðslum og leikformi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um að landsliðskjarninn sem náð hefur þessum magnaða árangri á undanförnum árum og spilað á tveimur stórmótum sé að komast á aldur. Núverandi landslið er byggt að talsverðu leyti á 21-árs landsliðinu sem komst í lokakeppni EM fyrir tíu árum, og einmitt núna er samskonar hópur að ganga í gegnum það sama og tekur þátt í lokakeppni EM í lok mars, á sama tíma og A-landsliðið verður á áðurnefndu ferðalagi um Þýskaland, Armeníu og Liechtenstein. Þar af leiðandi er viðbúið að ekki verði margir á þeim aldri í fyrsta A-landsliðshópi Arnars, enda yrðu yngri leikmennirnir tæplega teknir inn til að sitja á varamannabekknum í þremur leikjum á meðan þeir gætu verið að spila úrslitaleiki á EM í sínum aldursflokki.

Hannes Þór Halldórsson, Kári Árnason og Birkir Már Sævarsson leika …
Hannes Þór Halldórsson, Kári Árnason og Birkir Már Sævarsson leika með íslenskum liðum og verða 37 til 39 ára á þessu ári. Eiga þeir einhverja möguleika á að spila með landsliðinu í mars? AFP

Heltast einhverjir úr lestinni?

Enn hefur enginn landsliðsmannanna lýst því formlega yfir að dagar hans með íslenska landsliðinu séu endanlega taldir. Kári Árnason hefur þó sagt að varla verði mikil eftirspurn eftir 39 ára gömlum leikmanni úr Pepsi Max-deild karla á næsta ári og þeir Hannes Þór Halldórsson og Birkir Már Sævarsson, sem verða 37 ára á árinu, verða eins og hann í lítilli leikæfingu í marsmánuði eftir að hafa spilað síðast deildaleiki í byrjun október. Mikilvægi Kára fyrir liðið hefur engum dulist undanfarin ár. Hann hefur verið mikill leiðtogi í varnarleiknum og skarð hans er vandfyllt, enda þótt nokkrir íslenskir miðverðir séu komnir með talsverða reynslu af því að hlaupa í skarðið fyrir hann og Ragnar Sigurðsson af og til á undanförnum árum.

Emil Hallfreðsson er jafnaldri Hannesar og Birkis en hann var ekki valinn í landsliðið í haust og spilar í C-deild á Ítalíu. Endurkoma hjá honum er því ekki sérlega líkleg. Ragnar Sigurðsson verður 35 ára á árinu og Ari Freyr Skúlason 34 ára. Birkir Bjarnason verður 33 ára og þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson verða 32 ára á árinu 2021. Það mun ráðast af leikformi og metnaði þessara leikmanna hversu lengi þeir endast í landsliðinu, ekki af fæðingardegi og ári.

Endurnýjunin í landsliðshópnum verður alltaf einhver á milli ára, hvort sem hún verður svo róttæk að hægt verði að kalla hana kynslóðaskipti eða ekki. Einfaldast og eðlilegast er þegar hún á sér stað svo hægt og rólega að enginn veitir því sérstaka eftirtekt.

Greinin birtist áður í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins sem kom út 2. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert