Allt klappað og klárt hjá Finni

Finnur Tómas Pálmason í leik með KR.
Finnur Tómas Pálmason í leik með KR. mbl.is/Hari

KR-ingurinn Finnur Tómas Pálmason er þegar búinn að semja um kaup og kjör við sænska knattspyrnufélagið Norrköping og verður kynntur til leiks síðar í þessari viku.

Þetta segir netútgáfa sænska blaðsins Expressen í kjölfar frétta fyrr í dag um að Norrköping væri búið að semja við KR um kaup á Finni en Fótbolti.net skýrði frá því. Expressen segir að samkvæmt sínum heimildum sé allt þegar klappað og klárt og enn einn Íslendingurinn sé því á leið til Norrköping.

Það er alls ekki orðum aukið. Ísak Bergmann Jóhannesson er leikmaður Norrköping og Oliver Stefánsson er í leikmannahópi liðsins þó hann hafi ekki spilað með aðalliði félagsins enn sem komið er.

Arnór Sigurðsson og Jón Guðni Fjóluson voru báðir sendir frá Norrköping til rússneskra félaga árið 2018 og tíu aðrir íslenskir knattspyrnumenn hafa spilað með aðalliði félagsins. 

Það eru Birkir Kristinsson, Þórður Þórðarson, Guðmundur Viðar Mete, Stefán Þ. Þórðarson, Garðar B. Gunnlaugsson, Gunnar Þór Gunnarsson, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Arnór Ingvi Traustason, Guðmundur Þórarinsson og Alfons Sampsted.

mbl.is