Finnur Tómas Pálmason, varnarmaðurinn efnilegi í knattspyrnuliði KR-inga, er á leið til Svíþjóðar þar sem hann gengur væntanlega til liðs við Norrköping.
Fótbolti.net skýrir frá þessu í dag og Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, staðfestir þar að Vesturbæjarfélagið hafi samþykkt tilboð Norrköping í Finn. Hann eigi eftir að semja sjálfur við sænska félagið.
Finnur er 19 ára gamall miðvörður og hefur átt fast sæti í vörn KR-inga undanfarin tvö tímabil. Hann kom nokkuð óvænt inn í liðið fyrir tímabilið 2019 og spilaði þá 17 af 22 leikjum KR sem þá varð Íslandsmeistari. Á síðasta ári lék hann 14 af 18 leikjum KR á Íslandsmótinu.
Finnur hefur leikið 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Norrköping hafnaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson frá Akranesi var þar í stóru hlutverki en líkurnar á að hann og Finnur verði liðsfélagar eru ekki miklar því Ísak verður væntanlega seldur frá félaginu á næstu vikum.