KR afturkallaði áfrýjunina

KR-ingar voru í fimmta sæti þegar Íslandsmótið var blásið af …
KR-ingar voru í fimmta sæti þegar Íslandsmótið var blásið af og voru ekki sáttir við þá ákvörðun KSÍ að hætta keppni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR-ingar hafa afturkallað áfrýjun sína til Alþjóða íþróttadómstólsins, CAS, en þeir hugðust leita til hans eftir að áfrýjunardómstóll KSÍ staðfesti þann úrskurð Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að stjórn KSÍ hefði átt rétt á að blása Íslandsmótið af í lok október.

Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar KR sagði í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun á SportFM í dag að kostnaður við áfrýjunina til CAS hefði einfaldlega verið of mikill og tímaramminn jafnframt erfiður.

„Við afturkölluðum málið á þeim forsendum að kostnaður hefði hlaupið á fleiri fleiri milljónum og við mátum þetta sem svo að það væri ekki forsvaranlegt af hálfu félagsins að fara með fjármuni þess í slíka vegferð.

Kvennalið KR féll úr úrvalsdeildinni en átti fjóra leiki eftir …
Kvennalið KR féll úr úrvalsdeildinni en átti fjóra leiki eftir þegar keppni var hætt. mbl.is/Íris

Við tókum þá ákvörðun að láta gott heita á þessu stigi. Auðvitað vonumst við til þess að sambandið komi á einhvern hátt til móts við okkur og bæti okkur á einhvern hátt það tjón sem við teljum okkur hafa orðið fyrir. Við væntum þess að eiga góðar viðræður um það," sagði Páll.

Hjá honum kom fram að tímaramminn hefði einnig verið hluti af ástæðunni fyrir því að KR afturkallaði málið. 

„Skjöl og pappírar hlaupa á tugum ef ekki hundruðum blaðsíðna og það þarf að þýða allt á örfáum dögum, til að ganga frá málum gagnvart dómstólnum. Tímaramminn og kostnaðurinn buðu ekki upp á frekari málaferli af okkar hálfu. Við hefðum þurft að skila öllum gögnum í þýðingu innan þriggja daga og borga einhverja 40 þúsund franka. Kostnaðurinn og umfangið í kringum svona mál eru ekki á færi hvers sem er og ekki beint sniðið að íslenskum félagsliðum sem standa í ágreiningi við sambönd eða aðra sambærilega aðila," sagði Páll en 40 þúsund frankar samsvara um 5,8 milljónum íslenskra króna.

Kalt mat á stöðu mála er að æðsti dómstóll á íslandi hefur komist að þessari niðurstöðu og við virðum hana, þótt ég sé ekki sáttur við hana. En þetta kallar á ákveðna endurskoðun á lagarammanum og dómstólakerfinu sem sambandið býður upp á. Við hljótum að taka þá umræðu á ársþinginu," sagði Páll Kristjánsson í þættinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert