Landsliðskona á leið til Skotlands

Barbára Sól Gísladóttir í landsleiknum gegn Lettum í september.
Barbára Sól Gísladóttir í landsleiknum gegn Lettum í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barbára Sól Gísladóttir er á leið til skoska knattspyrnufélagsins Celtic á láni en hún er samningsbundin Selfossi í úrvalsdeild  kvenna.

Þetta staðfesti Sveinbjörn Másson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Selfoss, í samtali við fótbolta.net í dag.

Barbára Sól er einungis 19 ára gömul en hún lék sinn fyrsta A-landsleik á árinu þegar hún kom inn á sem varakona í 9:0-sigri Íslands gegn Lettlandi á Laugardalsvelli í undankeppni EM í september. Hún á tvo landsleiki að baki og 36 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Hún er uppalin á Selfossi og hefur leikið með Selfyssingum allan sinn feril en alls á hún að baki 50 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað sex mörk.

Celtic er í þriðja sæti skosku úrvalsdeildarinnar með 16 stig eftir sjö umferðir, tveimur stigum minna en topplið Rangers og Glasgow City.

Óvíst er hvenær Barbára heldur út til Skotlands þar sem hlé er á skosku deildarkeppninni vegna kórónuveirufaraldursins.

Selfyssingurinn mun snúa aftur til baka úr láni þegar úrvalsdeild kvenna hefst í sumar en norðankonan Arna Sif Ásgrímsdóttir hélt utan til Skotlands í byrjun mánaðarins og mun leika með Glasgow City á láni frá Þór/KA út tímabilið.

mbl.is